Kraftmikið starf í Leikskóla Fjallabyggðar í vetur

Í vetur hafa gildi og leiðarljós fræðslustefnunnar endurspeglast með markvissum hætti í starfi Leikskóla Fjallabyggðar. Leiðarljós fræðslustefnunnar er Kraftur – Sköpun - Lífsgleði.

Kraftur býr í starfsfólki leikskólans og nú er samstarf milli starfsstöðva Leikhóla og Leikskála í mikilli þróun – Nú þegar er starfsmannahópurinn í þónokkrum samskiptum og sækir námskeið og fræðslu saman en frekara samstarf og samvinna er á teikniborðinu og mörg mörg sóknarfæri eru á þeim vettvangi. Hafin er endurskoðun skólanámskrár Leikskóla Fjallabyggðar. Að henni vinna allir starfsmenn leikskólans og markmiðið er að með þeirri vinnu náist enn frekari samhljómur og samræming verklags og viðfangsefna.

Vinnuaðferðir kennara í Leikskóla Fjallabyggðar í Lubba námsefninu hafa vakið athygli og kennurum frá Leikskálum var boðið að taka þátt í námstefnu um Lubba nú í byrjun febrúar og kynna hvernig nýta má þetta námsefni með mikið sjónskertum nemendum.

Sköpun: Lögð er áhersla á kennslu gegnum leik. Inn í leikinn fléttast sköpun í víðasta skilningi. Kennsluaðferðinni Leikur að læra er beitt markvisst og leikskólinn hefur fengið til sín námskeið í þeirri kennsluaðferð. Hún byggist á því að inn í starfið fléttast leikir og fróðleikur sem eykur orðaforða, málvitund og læsi barnanna í víðum skilningi. Leikur að læra efnið nýtir hreyfileiki markvisst og leggur áherslu á að nám getur farið fram við margvíslegar aðstæður. Aðstæður yngri barna til leiks og sköpunar hafa verið bættar m.a. með fjölbreyttara leikefni.

Lífsgleði

Í nýlega birtri skýrslu um ytra mat í Leikskóla Fjallabyggðar kemur fram „að þar fer fram gott leikskólastarf sem er í góðu samræmi við áherslur í skólastefnu sveitarfélagsins. Börnunum líður vel eru sjálfsörugg og frjálsleg“  

Markvisst er gleðinni haldið á lofti og uppbrotum fléttað inn í daglegt starf. Kennari frá Tónlistarskólanum á Tröllaskaga syngur með börnunum og spilar á gítar, einu sinni í viku á báðum starfsstöðvum, skemmtilegar og fjörugar stundir sem börnin bíða spennt eftir. Aðrar söngstundir eru reglulegar og lífsgleðin höfð í hávegum í öllu starfi.