Mynd: www.umferd.is
Slysavarnafélagið Landsbjörg, Sjóvá, VÍS og Samgöngustofa gerðu haustið 2015 könnun á öryggi barna í bílum. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar undanfarin 30 ár en á árunum 1985 til 2011 voru árlega gerðar kannanir en eftir 2011 hafa þær verið gerðar annað hvert ár.
Nú liggur fyrir niðurstaða könnunarinnar 2015 sem gerð var við 60 leikskóla í 25 bæjarfélögum víða um land með 2.236 þátttakendum. Félagar í slysavarnadeildum og björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar víða um land, starfsfólk tryggingafélaganna Sjóvár, VÍS og starfsfólk Samgöngustofu sáu að þessu sinni um framkvæmd könnunarinnar.
Helstu niðurstöður eru þessar:
· Meðaltal látinna barna í umferðinni fer úr 5,5 í 0,8 á 30 árum
· Færri börn látast í umferðinni með aukinni notkun öryggisbúnaðar
· Árið 1985 voru 80% barna laus í bílum en árið 2015 eru þau 2%
· Mikill árangur með lagasetningu og aukinni vitund um öryggisbúnað
· Misjafn árangur milli sveitarfélaga
· Þrátt fyrir jákvæða þróun er niðurstaðan ekki ásættanleg
· Hástökk á Fáskrúðsfirði og Grindavík í auknu öryggi barna í bílum
Það vekur athygli að árið 1985 voru um 80% barna alveg laus í bílum en í dag er það hlutfall komið niður í 2%. Á þessum þremur áratugum hefur banaslysum meðal barna í umferðinni fækkað umtalsvert.
Þrátt fyrir þennan góða árangur er það ekki ásættanlegt að einhverjir skuli enn sleppa því að nota viðeigandi öryggisbúnað – búnað sem getur skilið milli lífs og dauða barns ef slys á sér stað.
Árið 2013 voru 20% barna á Siglufirði og í Ólafsfirði laus í bílunum eða notuðu ekki fullnægjandi öryggisbúnað. Í könnuninni sl. haust var Siglufjörður ekki með þannig að ekki er hægt að sjá samanburð við árið 2013. Aftur á móti var staðan tekin í Ólafsfirði og því miður er niðurstaðan ekki góð. Aðeins 68% barna voru í viðeigandi búnaði. Nánari upplýsingar um niðurstöður þessarar könnunnar má sjá hér.