Knattspyrnuskóli Grétars Rafns á Siglufirði

Hópurinn í knattspyrnuskólanum
Hópurinn í knattspyrnuskólanum
Um 130 börn tóku þátt í Knattspyrnuskóla Grétars Rafns Steinssonar og Knattspyrnufélags Siglufjarðar sem var haldinn dagana 2. til 6. júní síðastliðinn.

Skólinn hefur verið hugarfóstur Grétars um langa tíð og um áramótin síðustu hitti Grétar Rafn stjórn KS og upplýsti þau um ósk sína um skólann. Þá þegar var hafist handa við að undirbúa skólann sem varð svo að veruleika í byrjun júní, mjög fljótlega í undirbúningnum kom fram sú ósk að bjóða börnum úr Leiftri að taka þátt og var það boð þegið með þökkum.

Með Grétari í för voru 4 þjálfarar frá Bolton FC akademíunni og var gaman að sjá hvað þeir náðu vel til barnanna, eitt af því sem þeir tóku sérstaklega eftir var hvað aðstandendur skólans voru að gera þetta vel fyrir börnin og fengu þau mikið hrós frá þeim.

Um 750 máltíðir voru eldaðar og framreiddar fyrir þau 130 börn og unglinga þessa fimm daga sem skólinn stóð yfir, reynt var að hafa matinn hollann og góðan að hætti Lóu á Allanum. Þess má geta að aðstaðan í íþróttamiðstöðinni að Hóli var frábær og ekki má gleyma vallarstjóranum brosmilda sem vildi allt fyrir alla gera.

Það er orðið ljóst í dag að skólinn verður haldinn að ári hvort hann verður með sama sniði eða ekki, enda almenn ánægja með skólann.

Allir sem leitað var til höfðu áhuga á að styrkja þetta verkefni og sendir KS þeim bestu þakkir.

gretarskoli_640