Dagskrá Berjadaga, föstudaginn 14. ágúst verður sem hér segir:
Dvalarheimili aldraðra Hornbrekka – Ljósmyndasýning kl. 15:00
Kaffihúsastemning með Guðmundi Ólafssyni, Sigrúnu Valgerði Gestsdóttir og Sigursveini Magnússyni. Slegið á létta strengi og drukkið kaffi!
Tónleikar í Ólafsfjarðarkirkju kl. 20:00
Í Ólafsfjarðarkirkju kynnir hópurinn Mógil einstakan hljóðheim sinn og leika m.a. nýjar tónsmíðar af glóðvolgri plötu sem er væntanleg á markað nú í ágúst.
Meðlimir: Heiða Árnadóttir söngur, Kristín Þóra Haraldsdóttir víóla, Hilmar Jensson rafgítar, Eiríkur Orri Ólafsson trompet og Joachim Badenhorst klarinett. Mógil vefur einstakan hljóð vef í tónsmíðum sínum. Þar getur að heyra áhrif frá klassík, þjóðlagatónlist, og djassi. Textarnir eru mikilvægir í lögum þeirra og nokkur ljóð eru eftir söngvara hópsins Heiðu Árnadóttur en þau syngja einnig við ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur, Hannesar Péturssonar og Árna Ísakssonar. Þau hafa ferðast víða um heim og leikið á hátíðum einsog heimstónlistarhátíðinni WOMEX og nú geta áheyrendur notið þeirra í notalegu kirkjunni í Ólafsfirði þar sem þau flytja sín lög en einnig þekkt íslensk.