09.01.2008
Sigurbjörn Þorgeirsson kylfingur úr Golfklúbbi Ólafsfjarðar var kjörinn íþróttamaður Ólafsfjarðar árið 2007. Sigurbjörn átti mjög gott golfár, það langbesta frá upphafi.
Hann varð norðurlandameistari með Landsliði 35 ára og eldri, íslandsmeistari 35 ára og eldri, meistari meistaranna á lokamóti KB-mótaraðarinnar, í 5. sæti á síðasta KB-Bankamótinu í Vestmannaeyjum og 14. sætið á heildarstigalistanum, íslandsmeistari lögreglumanna og klúbbmeistari GÓ. Það má því sannarlega segja að þetta hafi verið árið hans Sigurbjörns.
Þetta er í fyrsta sinn sem kylfingur er útnefndur íþróttamaður Ólafsfjarðar. Skíðamenn hafa 27 sinnum hlotið titilinn, knattspyrnumenn hafa 4 sinnum hlotið hann og skotmaður einu sinni.
Í 2. sæti í kjöri íþróttamanns Ólafsfjarðar varð Elsa Guðrún Jónsdóttir skíðagöngukona en hún hefur 3. sinnum orðið íþróttamaður Ólafsfjarðar og í 3. sæti varð Þorvaldur Þorsteinsson knattspyrnumarkvörður.