Íslensku safnaverðlaunin 2020 Óskað er eftir ábendingum

Mynd: ICOM/FÍSOS
Mynd: ICOM/FÍSOS

Íslandsdeild ICOM og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) auglýsa eftir ábendingum til ÍSLENSKU SAFNAVERÐLAUNANNA 2020.

Íslensku safnaverðlaunin eru veitt annað hvert ár og er ætlað að vekja athygli á því sem vel er gert á íslenskum söfnum. Þeim er jafnframt ætlað að efla faglegan metnað og vera hvatning til að kynna menningu þjóðarinnar á framsækinn og áhugaverðan hátt. Að Safnaverðlaununum standa Íslandsdeild ICOM og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS).

Verðlaunin eru veitt einu safni sem þykir hafa skarað fram úr og vera til eftirbreytni. Ekki er gerður greinarmunur á tegundum safna og koma því öll söfn á landinu til greina; minja- og byggðasöfn, listasöfn, náttúrugripasöfn og önnur sérsöfn.

Safnaverðlaunin voru fyrst veitt árið 2000. Valnefnd skipuð fulltrúum félaganna og fulltrúa frá safninu sem síðast hlaut verðlaunin velur úr aðsendum hugmyndum en óskað er eftir tillögum frá almenningi, stofnunum og félagasamtökum um safn eða einstök verkefni á starfssviðið safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar. Söfnum er jafnframt heimilt að senda inn kynningar á eigin verkefnum. Til greina koma sýningar, útgáfur og annað er snýr að þjónustu við safngesti jafnt sem verkefni er lúta að faglegu innra starfi svo sem rannsóknir og varðveisla.

Úr aðsendum ábendingum tilnefnir valnefnd þrjú söfn eða verkefni sem verður tilkynnt 4. maí 2020. Stóra stundin verður svo á Alþjóðlega safnadeginum þann 18. maí 2020 þegar ljóst verður hvaða safn hlýtur viðurkenninguna.

Viðurkenningin sem felst í verðlaununum er bæði heiður og hvatning söfnunum þrem sem hljóta tilnefningu ekki síður en því safni sem hlýtur verðlaunin.

Ábendingum skal skilað í síðasta lagi 15. mars 2020 á netfangið: safnaverdlaun@gmail.com

Fréttin er aðsend.