Samkvæmt samþykktum um hundahald á Siglufirði og í Ólafsfirði skal hundur aldrei ganga laus á almannafæri, heldur vera í festi og í fylgd með manni, sem hefur fullt vald yfir honum. Eiganda hunds ber einnig skylda til að hreinsa upp saur eftir hund sinn samkvæmt sömu samþykktum.
Þegar hundur er í festi á húsalóð, skal lengd festarinnar við það miðuð, að óhindrað megi ganga að aðaldyrum hússins. Heimilt er að sleppa hundum lausum á auð svæði og ónotuð, fjarri mannabyggð.
Ítrekað hafa borist kvartanir um að hundar hlaupi um götur og á almennum útivistarsvæðum án þess að fylgdarmenn hafi fulla stjórn á þeim. Einnig eru brögð að því að hundaeigendur hreinsi ekki upp saur eftir hunda sína.
Gerð er sú krafa til hundaeigenda sem fengið hafa leyfi til hundahalds í Fjallabyggð, að þeir virða þær reglur sem eru í gildi um hundahald í sveitarfélaginu. Að öðrum kosti verða leyfi þeirra sem ekki fara að settum reglum afturkölluð. Þeir sem ekki hafa leyfi til hundahalds, verða sektaðir og viðkomandi hundar fjarlægðir.
Hundaeftirlitið í Fjallabyggð.