Horft til framtíðar - fyrstu niðurstöður íbúaþingsins

Þann 23. maí sl. var haldið íbúaþing í Fjallabyggð undir kjörorðunum "Horft til framtíðar". Um 40 íbúar og aðrir áhugamenn um þróun og rekstur sveitarfélagsins mættu og ræddu málefni samfélagsins og sveitarfélagsins. Starfsmenn Fjallabyggðar þakka þátttakendum á þinginu fyrir þá vinnu sem þeir lögðu á sig þar. 

Þótt þátttaka á íbúaþinginu hafi verið nokkuð undir væntingum voru umræðurnar frjóar og gagnlegar og staðfesta um margt það sem fólk hefur haft á tilfinningunni. Endanlegar niðurstöður þingsins liggja ekki fyrir, en helstu áhersluatriði þátttakenda hafa verið tekin saman og flokkuð. Þátttakendur voru beðnir að gefa svörum númer eftir mikilvægi sem notuð eru til að forgangsraða svörunum í samantektinni. Umræðunum var skipt í þrjá þætti:  A. Samfélagið í Fjallabyggð, B. Sameiningarmál og C. Atvinnumál. 

A1: Hvað gerir Fjallabyggð aðlaðandi?
Flest svörin við þessari spurningu vörðuðu náttúruna og umhverfið í Fjallabyggð og heildarvægi þeirra í svörum þátttakenda var mest. Nálægðin við náttúruna, náttúrufegurðin og útivistamöguleikar þeim tengdir voru nefndir, sem og fjöllin og Héðinsfjörður. Næst flest voru svör um að Fjallabyggð sé fjölskylduvænt samfélag og þess má geta að vægi þeirra svara var hæst miðað við fjölda. Í þriðja „sæti“ komu svo svör sem vörðuðu mannlíf og menningu staðanna í Fjallabyggð. Annað sem talið var gera Fjallabyggð aðlaðandi var sú þjónusta sem fyrir hendi er, nálægðin, samgöngur, skíðasvæðin, og fjölbreytt íþróttastarf.

A2: Hvernig viðhöldum við kostum samfélagsins?
Þegar spurt var um hvernig við getum viðhaldið kostum samfélagsins var mest áhersla á að viðhalda góðu þjónustustigi.  Atriði sem voru nefnd sérstaklega voru almenningssamgöngur, góðir skólar og verndun starfa við þjónustuna. Nefnt var sem dæmi að það sé „í lagi“ að reka tvær sundlaugar í Fjallabyggð. Atvinnustigið og fjölbreytni atvinnulífsins fengu næst mest vægi í svörum þátttakenda og þátttakendur nefndu fjölgun atvinnutækifæra fyrir ungt fólk og stuðning við ferðaþjónustu  í því samhengi. Verndun umhverfisins og frístundastarf fengu einnig mikið vægi, sem og að viðhalda sérstöðu samfélagsins/samfélaganna í Fjallabyggð. Í svörum sínu nefndu þátttakendur einnig að stuðla þurfi að fjölgun íbúa, framhaldsskólann, samfélagslega ábyrgð íbúa og að hlusta þurfi á íbúana.

A3: Hvert er hlutverk Fjallabyggðar í samfélaginu?
Þegar kom að því að svara spurningunni um hlutverk sveitarfélagsins í samfélaginu dreifðust svörin meira en í fyrstu spurningunum í þessum umræðulið. Áherslan var þó greinileg á þjónustuhlutverk sveitarfélagsins. Svör varðandi þjónustuna skiptust í meginatriðum í tvo flokka; svör þar sem lögð var áhersla á lögboðna þjónustu og svör þar sem lögð var áhersla á góða þjónustu. Áherslan á lögboðna þjónustu var þó heldur meiri. Þátttakendur ætla auk þess sveitarfélaginu að styðja við bakið á annarri starfsemi, fyrst og fremst í atvinnumálum, en einnig í menningar- og frístundamálum. Meðal annars sem nefnt var voru að stuðla að vistvænu og sjálfbæru samfélagi, að halda samfélaginu fjölskylduvænu, að hafa samráð við íbúa, að stuðla að því að sameiningin heppnist vel og markaðssetning.

B1: Hverju á sameiningin að skila okkur?
Traustara samfélag/sveitarfélag fékk mest vægi í svörum við þessari spurningu. Svörin dreifðust annars nokkuð jafnt í 3 meginflokka, þ.e. að sameiningin eigi að skila traustara samfélagi/sveitarfélagi, hagræðingu og bættri þjónustu. Mjög lítill munur var á því vægi sem hagræðing og bætt þjónusta fengu. Aðrir þættir sem voru nefndir voru bætt mannlíf og umhverfi fyrir íbúa og bættar samgöngur.

B2: Hvar má hagræða
Dreifing svara varðandi hagræðinguna var mikil, en flest svörin vörðuðu hagræðingu í stjórnsýslu/yfirstjórn og rekstri fræðslustofnana. Vægi hagræðingar í stjórnsýslu/yfirstjórn var þó heldur meira. Úr svörunum má lesa vilja til sameiningar stofnana á fræðslu og frístundasviði og fækkun stjórnenda. Meðal annars sem nefnt var undir þessum lið var að þörf sé á almennri endurskipulagningu rekstrarins og aukinni samþættingu og að hagræðing þyrfti að eiga sér stað í sátt við íbúa Fjallabyggðar.

C1: Hvernig má efla einstaka atvinnuvegi í Fjallabyggð?
Í umræðum um þessa spurningu var þátttakendum skipt í hópa sem hver um sig fjallaði um ákveðnar atvinnugreinar. Flokkarnir voru þrír; „Matvælaframleiðsla og vinnsla sjávarfangs“,“ Iðnaður og framleiðsla“ og  „Verslun og þjónusta“.

Í flokknum „Matvælaframleiðsla og vinnsla sjávarfangs“ var megináherslan á möguleika greinarinnar sjálfrar til nýsköpunar og þróunar í vinnslu. Ferðatengdur matvælaiðnaður, aukin  fullvinnsla sjávarafurða og sértæk staðbundin lúxusvara voru nefnd (listuð í forgangsröð hópsins).

Í flokknum „ Iðnaður og framleiðsla“ var mest áhersla á stuðning og ráðgjöf. Ráðning atvinnufulltrúa og aukinn stuðningur við atvinnuþróun voru nefnd í því samhengi, sem og iðngarðar og markaðsskrifstofan. Lækkun flutnings- og orkukostnaðar voru einnig nefnd og „að skapa rétt umhverfi“ fyrir atvinnurekstur með góðum samgöngum, menntun, þjónustu og aðstoð við styrkumsóknir.

Í flokknum „Verslun og þjónusta“  var mest áhersla á að bæta þurfi þjónustuna og að hún þurfi að vera samkeppnishæf í verðum og gæðum. Einnig var fjallað um að  auka þurfi samstarf milli aðila og aukna markaðssetningu.

C2: Hverja á að styðja við og hvernig?
Mest áhersla var á stuðning við nýsköpun og sprotafyrirtæki. Slíkur stuðningur var oftast nefndur og samanlagt vægi mest. Almennur stuðningur við atvinnustarfsemi, t.d. með starfi atvinnufulltrúa fékk nokkuð vægi, og einnig stuðningur við þá atvinnustarfsemi sem þegar er í sveitarfélaginu. Þar var atvinnufulltrúinn einnig nefndur.

Varðandi spurninguna um það hvernig ætti að styðja við atvinnustarfsemi var áherslan fyrst og fremst á aðstoð og ráðgjöf. Aðgangur að ódýru húsnæði er einnig nefndur, s.s. í iðngörðum, sem einnig mætti flokka undir aðstoð. Markaðssetning, lækkun gjalda hjá nýsköpunarfyrirtækjum og verslun í heimabyggð eru einnig nefnd.

C3: Hvert er hlutverk sveitarfélagsins að vera í atvinnuuppbyggingu?
Mikill samhljómur var meðal þátttakenda um hlutverk sveitarfélagsins í atvinnuuppbyggingu, að því leiti að flestir hópanna ætluðu sveitarfélaginu að veita ráðgjöf og aðstoða fyrirtæki við atvinnuþróun, styrkumsóknir o.þ.h. Starf atvinnufulltrúa bar ítrekað á góma. Mjög tengt þessu voru svör varðandi hlutverk sveitarfélagsins í að skapa góðar aðstæður fyrir atvinnurekstur, en í svörum sem féllu í þann flokk voru einnig nefnd atriði sem féllu undir aðstoð og ráðgjöf. Góðar samgöngur, góðir skólar, aðgangur að aðstöðu eru einnig nefnd í þessum flokki. Markaðssetning og sókn á stjórnvöld um opinber störf í Fjallabyggð voru einnig nefnd, sem og hlutverk sveitarfélagsins í að vera skapandi og vakandi.

Unnið er úr því mikla magni upplýsinga sem varð til á þinginu og niðurstöðurnar verða birtar í samantekt hér á vefnum að því loknu. Ætlunin er að tekið verði mið af niðurstöðum þingsins í ýmsum ákvörðunum sem teknar verða á næstunni og í vinnu við mótun atvinnustefnu Fjallabyggðar.