11.03.2008
Alls bárust 23 umsóknir um stuðning hjá Vaxtarsamningi Eyjafjarðar, en umsóknarfresturinn rann út þann 29. febrúar. Bæði klasaverkefni innan tiltekinna atvinnugreina og samstarfsverkefni ólíkra fyrirtækja geta hlotið stuðning.
Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar (AFE) hefur umsjón með Vaxtarsamningi Eyjafjarðar og á verkefnið að stuðla að samstarfi fyrirtækja á svæðinu með stuðningi við skilgreind verkefni. Á dögunum var auglýst eftir verkefnum í fyrsta sinn eftir að samningurinn var endurnýjaður og honum var breytt og rann umsóknarfrestur út þann 29. febrúar.
Alls bárust 23 umsóknir þar sem samtals var óskað eftir framlagi úr samningnum upp á 105 milljónir, en það er skilyrði gagnvart stuðningi að það komi a.m.k. jafn hátt framlag frá umsóknarfyrirtækjum og samstarfsaðilum. Bæði klasaverkefni innan tiltekinna atvinnugreina og samstarfsverkefni ólíkra fyrirtækja geta hlotið stuðning. Stefnt er að því að auglýsa aftur eftir verkefnum síðar á þessu ári, en úthlutanir verða 2-3 á ári.