Héraðsskjalasafnsfréttir

Héraðsskjalasafnið okkar hér í Fjallabyggð á 35 ára afmæli á þessu ári. Ánægjulegt er að segja frá því að safnið er að festa sig í sessi.
Fjöldi afhendinga til safnsins hefur á síðustu fimm árum farið úr í að vera 13 afhendingar á ári í 30 – 40 á ári. Fyrirspurnir og notkun á efni því sem héraðasskjalasafnið hefur yfir að ráða hefur líka aukist mikið.
Á árinu 2018 bárust 46 formlegar fyrirspurnir og voru það ekki margar af þeim þar sem ekki var hægt að finna þau skjöl sem beðið var um. Unnið hefur verið stöðugt síðustu fimm ár að skráningu skjala og má nefna að í fyrra voru skráð skjöl á 51 aðila (stofnanir, einkaskjöl, félagasamtök og fyrirtæki). Snemma á árinu 2018 samþykkti bæjarráð stefnumótun fyrir Héraðsskjalasafnið sem þær Ríkey Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóri fræðslu- frístunda- og menningarmála og Hrönn Hafþórsdóttir héraðsskjalavörður unnu. Nauðsynlegt var að fara í þessa stefnumótun vegna nýrra laga um opinber skjalasöfn sem sett voru árið 2014. Í þeim lögum var starfsleyfi héraðsskjalasafnanna hert og eftirlitsskylda þeirra aukin og einnig er krafa um stafræna miðlun.

Hér má sjá þau lög og reglur sem þeim sem reka héraðsskjalasafn ber að fara eftir: Lög um opinber skjalasöfn nr. 77 28. maí 2014. Reglugerð um héraðsskjalasöfn nr. 283/1994. Upplýsingalög 2012 nr. 140 28. desember. Stjórnsýslulög 1993 nr. 37 30. apríl. Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 90 27. júní 2018. Þess má geta að ný reglugerð er í vinnslu hjá ráðuneytinu og vonandi ekki langt að bíða eftir að hún verði samþykkt.

Það segir sig sjálft að með aukinni virkni verður til krafan um meira rými undir starfsemina. Þegar fjárhagsáætlun ársins 2019 var unnin var gert ráð fyrir fjármagni hjá eignasjóði til kaupa á nýjum skjalaskápum. Þeir voru settir upp núna í mars 2019. Héraðsskjalavörður tók þá ákvörðun að nefna skápana eftir örnefnum hér í Fjallabyggð, notast var við styttingar eins og Hnúkur, Hyrnan, Hólar og einnig voru notuð nöfnin, Kleifar, Bekkur, Brekkur og svo framvegis. Mikið hefur áunnist á árinu varðandi aðstöðu og búnað héraðsskjalasafnsins. Stefnumótunin hefur skilað sínu og alltaf færumst við nær því að uppfylla þau lög og reglur sem gilda varðandi héraðsskjalasöfn. Ef fram fer sem horfir er ný heimasíða væntanleg og mun þá aðgengi almennings að skjölum og geymsluskrám verða að veruleika.

   

Skjalaherbergi fyrir breytingar.