Héðinsfjörður hreinsaður

Flutningi lokið.
Ragnar Ragnarsson og Gestur Matthíasson
Flutningi lokið.
Ragnar Ragnarsson og Gestur Matthíasson

Mikil hreinsun á hvers kyns plastrusli hefur farið fram í Héðinsfirði nú í haust og vetur. Það eru Siglfirðingarnir Ragnar Ragnarsson og Lísa Dombrowe sem hafa staðið í ströngu og lagt á sig óheyrilega mikið verk. Þarna er um að ræða hverskyns plastúrgang, frá uppþvottabrúsum til heilu og hálfu veiðarfæranna, fiskikassar og kör, kaðlar, bíldekk, trollkúlur og ótalmargt fleira. Allt hefur þetta mikla plastmagn borist utan af hafi undanfarna marga áratugi og virðist að mestu leyti vera tengt sjávarútvegi.

Þau Ragnar og Lísa unnu við þetta í margar vikur, virka daga sem helga, og söfnuðu plastinu saman á stað þar sem hægt var flytja það á báti eftir Héðinsfjarðarvatni. Þetta mikla plastmagn hafa þau þurft að bera og draga allt að eins og hálfs kílómetra leið,  eða að meðaltali nær hálfan kílómetra hverja einingu (10-50 kg).
Þau hafa notið liðsinnis vina sinna, Guðnýjar Róbertsdóttur og Örlygs Kristinnssonar og ekki síst Gests Matthíassonar sem flutti bát sinn nokkrum sinnum frá Dalvík til að ferja allt söfnunarplastið eftir vatninu , alls 17 ferðir. Þá tók við vörubíll sem sveitarfélagið Fjallabyggð sendi á vettvang,  alls 3 ferðir með á að giska 40 rúmmetra í sorpgáma á Siglufirði.

Hreinsunina hafa þau Ragnar og Lísa unnið í samráði við landeigendur sem seint fá þeim fullþakkað. Þá hefur Fjallabyggð sýnt góðan stuðning eins og kemur hér fram.

Raggi og Lísa eru mikið útivistarfólk og láta varla nokkurn dag líða hjá án þess að fara til fjalla eða í lengri gönguferðir, t.d. um Héðinsfjörð. Á slíkum ferðum á undanförnum árum og misserum hafa þau jafnan safnað plastrusli í poka og tekið með sér til förgunar á „réttum stað“. Þannig hefur hin mikla hreinsun Héðinsfjarðar í haust og vetur átt sér alllangan aðdraganda.
Stefnt er að því að fullhreinsa fjörukambana og umhverfi þeirra næsta sumar og þyrfti þá liðsauka í allt smáplastið sem liggur úti um allar trissur.

Verk þeirra Ragga og Lísu má meta sem mikið elju- og afreksverk. Óbeðin hafa þau tekið að sér viðfangsefni sem flestir hafa talið nær óvinnandi – með hendur sínar og þrautseigju að vopni. Samfélagið í Fjallabyggð og raunar allir landsmenn standa í mikilli þakkarskuld við þetta góða og fórnfúsa fólk.

Fjallabyggð þakkar þeim Ragnari og Lísu, Örlygi, Guðnýju og Gesti fyrir einstakt afrek,  fórnfýsi og elju. Þeim verður seint fullþakkað fyrir framtak þeirra í þágu samfélagsins og náttúrunnar. 

Myndir frá hreinsun í Héðinsfirði

Frétt: Örlygur Kristfinnsson
Myndir: Raggi, Lísa og Guðný Róbertsdóttir.