Hannes Boy og Kaffi Rauðka aðilar að VAKANUM

VAKINN er samstarfsverkefni Ferðamálstofu, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Ferðamálasamtaka Íslands og Samtaka ferðaþjónustunnar.
Þetta kerfi er fyrst og fremst verkfæri til að aðstoða aðila í ferðaþjónustu við að auka gæði og öryggi. Og það er gert með hjálpargögnum og leiðsögn. En þetta kerfi skiptist í tvennt; Gæðaflokkun og umhverfiskerfi.
Gæðaflokkunin skiptist í tvennt; gisting og ferðaþjónusta önnur en gisting. 
Markmið VAKANS er að efla gæði,  öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu með handleiðslu og stuðningi, ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð.

Markaðslegur ávinningur af því að geta flaggað merkjum VAKANS ætti að vera augljós, þ.e. að geta kynnt fyrir viðskiptavinum að fyrirtækið hafi verið tekið út af óháðum aðila og það hafi staðist viðurkenndar gæðakröfur. Að sama skapi er viðurkenning fyrir þátttöku í umhverfiskerfinu rós í hnappagat fyrirtækisins því vitundarvakning á sviði umhverfismála er vaxandi og viðskiptavinir beina í auknum mæli viðskiptum sínum til fyrirtækja sem sýna fram á ábyrgð í umhverfismálum.
Aðeins þeir sem eru þátttakendur í VAKANUM hafa heimild til að nota merki hans. Fyrirtæki sem standast úttekt fá að henni lokinni eftirfarandi:
- Skilti og viðurkenningarskjal.
- Siðareglur VAKANS.
- Merki VAKANS á rafrænu formi til að setja á heimasíðu og/eða á prentað efni.
- Fána VAKANS til að flagga utanhúss.
- Þau fyrirtæki sem taka þátt í umhverfiskerfi VAKANS fá sér skilti fyrir þann hluta.

Í febrúar var auglýst námskeið fyrir ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi og hafa fulltrúar frá Rauðku ehf sótt það námskeið. Því er nú lokið og eru veitingastaðirnir Hannes Boy og Kaffi Rauðka á Siglufirði nýjustu þátttakendurnir í Vakanum.
Á dögunum komu fulltúar frá Vakanum í heimsókn til Siglufjarðar og afhentu fulltrúum Rauðku ehf viðurkenning með að hafa lokið námskeiðinu og uppfyllt þá staðla sem VAKINN gerir kröfu um til veitingastaða.

Rauðka og Vakinn
Á myndinni eru frá vinstri Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, María Petra Björnsdóttir markaðsráðgjafi Rauðku,
Finnur Yngvi Kristinsson verkefnastjóri hjá Rauðku, Sigríður María Róbertsdóttir framkvæmdastjóri Rauðku og
Áslaug Briem verkefnastjóri gæðamála hjá Ferðamálastofu.