Guðrún Ósk íþróttamaður ársins á Siglufirði

Í gærkveldi var tilkynnt um val á íþróttamanni ársins 2007 á Siglufirði. Að þessu sinni var það Guðrún Ósk Gestsdóttir keppandi í frjálsum íþróttum sem varð fyrir valinu. Guðrún átti mjög gott ár í fyrra. Hún keppti á 10 mótum og sýndi fram á að hún er ein af efnilegustu frjálsíþróttastúlkum landsins. Síðasta sumar fór hún reglulega á æfingar upp á Sauðárkrók til að æfa við betri aðstæður en bjóðast á Siglufirði svo hún gæti tekið meiri framförum í greininni. Helstu árangrar Guðrúnar á sl. ári eru þessir: Meistaramót Íslands innanhúss; 2. sæti í langstökki, 6. sæti í 80m og 800m hlaupum.
Unglingalandsmót UMFÍ; 3. í langstökki, 5. í 100m hlaupi og 6. í 800m hlaupi. Norðurlandsleikar; 1. sæti í 80m og 800m hlaupum.
Grunnskólamót UMSS; 1. sæti í langstökki og 80m hlaupi. Auk þess náði hún góðum árangri á fleiri mótum.
Á afrekaskrá Frjálsíþróttasambandsins fyrir síðasta ár er Guðrún m.a. með 3. besta árangurinn á landinu í sínum flokki í 300m grindahlaupi, 4. besta í 800m, 11. besta í 100m og þann 12. besta í langstökki.