Grunnskóli Siglufjarðar í úrslitum í Skólahreysti

Grunnskóli Siglufjarðar tryggðu sér sæti í úrslitum í Skólahreysti 2008, sem fram fer í Laugardalshöll 17. apríl nk. Tvær keppnir fóru fram í Íþróttahöllinni Akureyri í gær, þar sem alls 18 skólar kepptu í tveimur riðlum. Í fyrri riðlinum kepptu skólar úr dreifbýli, alls ellefu lið. Keppnin var jöfn og spennandi og voru það lið Reykjahlíðarskóla, Dalvíkurskóla og Grunnskóla Siglufjarðar sem leiddu keppnina allan tímann þar til Grunnskóli Siglufjarðar hafði sigur. Sjöundi riðill í Skólahreysti fór fram í gær í Íþróttahöllinni Skólastíg á Akureyri.  Ellefu skólar kepptu í þessum riðli: Árskóli, Dalvíkurskóli, Grunnskóli Blönduóss, Grunnskóli Hofsóss, Grunnskóli Ólafsfjarðar, Grunnskóli Siglufjarðar, Reykjahlíðarskóli, Grenivíkurskóli, Húnavallaskóli, Höfðaskóli og Varmahlíðarskóli.

Lið Grunnskóla Siglufjarðar hafði titil að verja frá fyrra ári. Þau komu kappsfull til leiks og augljóslega ákveðin í að taka vel á því. Guðrún Ósk Gestsdóttir sigraði í armbeygjunum, tók 48 stk. Ástþór Árnason tók 25 dýfur og náði fyrsta sæti í þeim ásamt Kristófer Víólettusyni frá Dalvíkurskóla sem einnig tók 25 stk.
Spennustigið var hátt fyrir síðustu grein, hraðaþraut. Þá var Grunnskóli.Siglufjarðar með 36,5 stig og Dalvíkurskóli aðeins hálfu stigi á eftir þeim eða með 36 stig. Svava og Anton frá Grunnskóla Siglufjarðar sigruðu hraðaþrautina og innsigluðu þar með sigur skólans og náði liðið sér samtals í 58,5 stig.

Sexhundruð manns mættu til að horfa á keppnina. Stuðningsmenn komu margir hverjir langt að en það hindraði þá greinilega ekki frá því að koma. Forsvarsmenn skólanna koma með rútur fullar af krökkum til að horfa á og hvetja. Algjörlega til fyrirmyndar af skólunum að fjölmenna svona með stuðningsmannaliðin. Ómetanlegt fyrir keppendur að fá svo öfluga hvatningu og gerir sjónvarpsþættina miklu skemmtilegri.
Þáttur frá þessu móti verður sýndur næst þriðjudag 04.mars kl.20:00 á Skjá einum.