Föstudaginn 29. febrúar sl. var haldið málþing um einelti og Olweusaráætlunina í Kennaraháskóla Íslands. Á málþinginu var leitast við að svara því hvernig Olweusaráætlunin hefur gjörbreytt skólastarfi frá því árið 2002 þegar verkefnið var sett á laggirnar. Um 130 manns mættu á þingið sem var bæði fróðlegt og skemmtilegt og þar spiluðu starfsmenn Fjallabyggðar stórt hlutverk.
Jónína skólastjóri Grunnskólans á Siglufirði var með erindi er nefndist; Skólastarf fyrir og eftir Olweus. Nemendur á Siglufirði höfðu smíðað Olweus sjálfan í fullri stærð og var hann á sviðinu á meðan á ráðstefnunni stóð. Karítas fræðslufulltrúi Fjallabyggðar stjórnaði fjöldasöng ráðstefnugesta með undirspili og texta sem nemendur 7. bekkjar Grunnskólans í Ólafsfirði gerðu fyrir um 5 árum sem ber heitið; „Einelti er helvíti á jörð“ (við ,,Lagið um það sem er bannað“). Að lokum stjórnuðu Róbert kennari á Siglufirði og Karítas málstofum fyrir ráðstefnugesti.
Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að því að minnka einelti í grunnskólum Fjallabyggðar og viljum minna foreldra á Siglufirði á fund um niðurstöður eineltiskönnunar sem verður á mánudagskvöldið kl. 20.00 í Allanum.