Mynd: Guðný Ágústsdóttir
Dagskrá um sjómannadagshelgina í Ólafsfirði hefur nú litið dagsins ljós og má segja að hún sé hin glæsilegasta. Það er Sjómannadagsráð Sjómannafélags Ólafsfjarðar sem hefur haft veg og vanda að gerð dagskrárinnar sem höfðar til fólks á öllum aldri.
Sjómannadagurinn í Ólafsfirði 2019
Sjómannadagurinn hefur í langan tíma verið haldinn hátíðlegur í Ólafsfirði enda mikilvægur í augum íbúa svæðisins og sjómennskan nátengd sögu Ólafsfjarðar. Sjómannadagsráð Ólafsfjarðar hefur alla tíð lagt mikið upp úr því að halda veglega hátíð í tilefni sjómannadagsins og stendur hátíðin yfir í þrjá daga. Þannig hefur hátíðin markað sér sérstöðu á Norðurlandi, enda kemur fólk víða að til að skemmta sér og njóta dagsins í Ólafsfirði.
Dagskráin hefst strax á föstudaginn 31. maí en þann dag verður meðal annars bein útsending á Fm95Blö, Leirdúfuskotmót sjómanna og uppstand í Tjarnarborg þar sem Ari Eldjárn mun setja saman hóp uppistandara. Herra Hnetusmjör og Huginn ljúka svo kvöldinu með balli í Tjarnaborg.
Á laugardeginum verður mikið um dýrðir en dagurinn verður tekinn snemma með dorgveiðikeppni fyrir börnin við höfnina. Allan daginn verður eitthvað um að vera, keppnir, knattspyrnuleikur KF og Sindra og knattleikur sjómanna. Úrslita leikur Meistaradeildarinnar verður sýndur á risaskjá við Tjarnarborg. Hjómsveitin okkar í Fjallabyggð, Ronja og Ræningjarnir halda uppi fjörinu á útiskemmtun frá kl. 21 á laugardagskvöldinu en veislan endar svo á því að Stebbi Jak og Andri Ívars taka föstudagslögin í Tjarnarborg fram á nótt.
Á sjálfan sjómannadaginn byrjar dagskrá með skrúðgöngu og Hátíðarmessu þar sem sjómenn verða heiðraðir. Fjölskylduskemmtun verður svo við Tjarnarborg þar sem framkoma m.a. Jói P og Króli, Ronja og ræningjarnir, uppistandararnir Pétur Jóhann, Ari Eldjárn, Auddi og Steindi. Einnig verða hoppukastalar og stanslaus fjör allan daginn.
Hátíðinni lýkur með árshátíð sjómanna í íþróttahúsinu með hátíðarkvöldverði og fjölbreyttri skemmtidagskrá sem endar með dansleik og fjöri fram á nótt. Árshátíðin er opin öllum sem áhuga hafa og er miðaverð á árshátíðina er kr. 9.500 og á ballið kr. 3.000.-
Dagskrá hátíðarinnar er hægt að nálgast hér og á Facebook síðu Sjómannadagsins í Ólafsfirði
Íbúar Fjallabyggðar eru hvattir til þátttöku í hátíðarhöldunum.
Boðið upp á rútuferðir á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar sem hér segir:
Laugardagur 1. júní
Frá Siglufirði kl. 13:30 og 20:30 (Farið frá Torginu)
Frá Ólafsfirði kl. 16:00 og 22:30 (Farið frá íþróttamiðstöðinni)
Sunnudagur 2. júní
Frá Siglufirði kl. 13:00 (Farið frá Torginu)
Frá Ólafsfirði kl. 16:00 (Farið frá íþróttamiðstöðinni)