Gjörninga- og uppákomudagskrá í Alþýðuhúsinu

Alþýðuhúsið
Alþýðuhúsið
Á föstudaginn langa ætlar fjöldi listamanna að stíga á stokk í Alþýðuhúsinu á Siglufirði með gjörninga, tónlist, rímur og upplestur ljóða og skáldverka. Dagskráin hefst kl. 14.00 og stendur til kl. 18.00. 
Þennan langa föstudag verður opið hús, svo fólk getur komið og farið þegar því hentar. Dagskráin verður tímasett á um það bil korters fresti. En meiningin er að hafa þetta á frjálslegu nótunum og gætu því listamenn bæst í hópinn þegar til kemur.
Þeir listamenn sem koma fram eru, Georg Óskar Giannakoudakis, Hekla Björt Helgadóttir, Freyja Reynisdóttir, Örlygur Kristfinnsson, Arna Gudný Valsdóttir, Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir, Anna Elionora Olsen Rosing, Arnar Ari Lúðvíksson, Sigurjón Harðarson, Victor Ocares, Brák Jónsdóttir, Hallgrímur Helgason, Guðni Brynjólfur Ásgeirsson, Toggi Nolem Gíslason og Kvæðamannafélagið Ríma.

Í Kompunni sem er lítið sýningarrými í miðju húsinu sýnir Guðrún Þórisdóttir- Garún, verk sem bera titilinn    " Lykkjuföll og skuggadans "