Nemandi GF vinnur með OSMO
Gildandi fræðslustefna skapar aðstæður til sömu námstækifæra nemenda í yngstu árgöngum
Eitt af markmiðum nýju fræðslustefnunnar er að bæta námsaðstæður nemenda þannig að grunnskólinn bjóði nemendum jöfn námstækifæri svo þeir nái sem bestum árangri miðað við eigin forsendur. Í ytra mati sem gert var haustið 2015 á Grunnskóla Fjallabyggðar var bent á að samræma þyrfti kennsluáætlanir barna innan hvers árgangs í yngri árgöngum.
Faglegt samstarf kennara er eitt af því sem getur jafnað námstækifæri nemenda því það leggur grunn að samræmdum vinnubrögðum og getur tryggt kraftmikið skólastarf. Með sameiginlegri starfsstöð allra kennara á yngsta stigi er þeim skapaðar betri aðstæður til faglegs samstarfs sem skilar sér í samræmdari kennsluháttum og um leið samræmdari námstækifærum yngri barna. Í kennarahópnum býr mikil fagþekking og reynsla sem hann miðlar innbyrðis til hagsbóta fyrir alla yngri nemendur. Ákveðinn kostur fylgir því einnig að hafa öll námsgögn og kennslubúnað á einum stað en með því móti nýtist búnaðurinn fleiri nemendum.
Ný vinnubrögð og notkun búnaðar sem höfða til nemenda hafa verið innleidd í skólastarfið á líðandi skólaári. Samfélagssjóður Siglufjarðar styrkti skólann myndarlega árið 2017 til kaupa á eftirtöldum búnaði þ.e. hljóðkerfi sem hefur verið nýtt til tónlistarkennslu og ýmis konar samveru t.d. fyrir söngsal, jólaball o.fl. í 1.-5. bekk, OSMO námsleikir sem notað er með spjaldtölvum fyrir 1.-7. bekk og sýndarveruleikagleraugu sem notuð hafa verið í 6.-10. bekk. Fjallabyggð hefur komið til móts við óskir skólans á fjárhagsárinu 2018 og því geta kaup á nauðsynlegum kennslugögnum og tölvubúnaði haldið áfram ásamt endurnýjun á búnaði og áhöldum til kennslu í íþróttasal við Norðurgötu.
Fyrir áramót var sett á laggirnar Snillismiðja í 6.-10. bekk sem er kennslurými sett upp skv. hugmyndafræði STEAM sem stendur fyrir vísindi, tækni, verkfræði, listir og stærðfræði. Í Snillismiðjunni eiga allir nemendur að geta fundið verkefni við hæfi sem reyna á ofantaldar greinar og kynna nemendum fyrir þeim á skemmtilegan og skapandi hátt t.a.m. eru nemendur að setja saman vélmenni sem gengur fyrir sólarorku.