Gönguleiðir á Tröllaskaga

Hólaskóli hefur gefið út kort nr. 2 í röðinni Gönguleiðir á Tröllaskaga. Kortið nær yfir Fljót, Siglufjörð, Héðinsfjörð og Svarfaðardal. Kortið er í mælikvarða 1:50.000 og nær yfir norðanverðan Tröllaskaga og er í beinu framhaldi korts sem kom út 2005 Gönguleiðir á Tröllaskaga I. Kortið er gefið út af Hólaskóla, en kortið er samstarfsverkefni Sveitarfélaganna Fjallabyggð (Siglufjörður og Ólafsfjörður), Dalvíkurbyggðar og Skagafjarðar. Ferðamálastofa Íslands hefur styrkt gerð kortsins.Hægt er að kaupa kortið víða á Norðurlandi og í helstu bókabúðum. Söluaðilar geta pantað kortið á skrifstofu Hólaskóla (s: 455-6300).Tilgangur með kortinu er að vekja athygli á Tröllaskaga sem áhugaverðu útivistarsvæði, hvort sem fólk ferðast um gangandi eða ríðandi. Á Tröllaskaganum eru göngufélög sem bjóða upp á gönguferðir. Í Skagafirði er Ferðafélag Skagafjarðar, á Siglufirði er búið að stofna Ferðafélag Siglufjarðar, á Ólafsfirði er það göngufélagið Trölli og á Dalvík Ferðafélag Svarfaðardals. Einnig býður Ferðafélag Akureyrar upp á ferðir, Ferðafélag Íslands, Útivist og fleiri fyrirtæki sem skíða og ganga með útlendinga um svæðið.