Fyrirtækjaheimsóknir atvinnumálanefndar

Frá heimsókn í Skiltagerð Norðurlands
Frá heimsókn í Skiltagerð Norðurlands

Atvinnumálanefnd Fjallabyggðar setti sér það markmið á fundi sínum þann 21. janúar sl. að heimsækja fyrirtæki í bæjarfélaginu. Markmið með heimsóknunum yrði að efla tengsl bæjarfélagsins og atvinnurekenda á svæðinu.
Nefndin hefur nú heimsótt fjögur fyrirtæki.

Fyrir fund nefndarinnar þann 4. febrúar voru fyrirtækin Skiltagerð Norðurlands og Múlatindur í Ólafsfirði heimsótt. Í gær voru svo fyrirtækin Egils sjávarafurðir og Premium á Siglufirði heimsótt. Þessar heimsóknir hafa verið afar upplýsandi og fræðandi fyrir nefndarfólk.

Skiltagerð Norðurlands er í eigu Tómasar Einarssonar og er hann eini starfsmaður fyrirtækisins. Skiltagerð Norðurlands ehf er fyrirtæki sem sérhæfir sig í merkingum og skiltagerð af öllum stærðum og gerðum.
Býður fyrirtækið upp á heildarlausnir við hönnun og framleiðslu á m.a. skiltum, alls kyns auglýsingum, bílamerkingum, umferðarskiltum, sýningarbásum, gluggaskreytingum og legsteinum.
Verkefnastaða er góð og er útlit fyrir að bætt verði við einum starfsmanni á næstu vikum.

Múlatindur býður upp á alhliða bifreiðaþjónustu. Fyrirtækið er í eigu Magnúsar Sigursteinssonar og sona hans Sigursteins og Sigurjóns. Hjá fyrirtækinu starfa nú 7 - 8 manns og er verkefnastaða mjög góð. Fyrirtækið hefur markað sér sess fyrir góða og ódýra þjónustu og eru þess dæmi að ódýrara sé fyrir fólk sem býr fyrir sunnan að keyra bíl norður, gista eina nótt á hóteli, fá viðgerð á bíl sínum og keyra svo aftur suður, heldur en að láta gera við bílinn á verkstæði á höfuðborgarsvæðinu.

Fram kom hjá báðum þessum aðilum að samstarf við MTR sé gott og hafi tilkoma skólans í Ólafsfirði styrkt stoðir þessara fyrirtækja.

Frá heimsókn í Múlatind
Frá heimsókn nefndarinnar í Múlatind.

Egils sjávararafurðir sem er í eigu Gústaf Danielssonar sérhæfir sig í framleiðlu á reyktum laxi og síld. 80 - 90% af framleiðslunni fer á erlendan markað. Hjá fyrirtækinu starfa nú 5 manns en gert er ráð fyrir að þeim fjölgi um þrjá á næstu mánuðum. Tímamót verða hjá fyrirtækinu á næstu tveim til þremur vikum en þá mun fyrirtækið flytja starfsemi sína frá Gránugötu og í gömlu rækjuverksmiðju Rammans við Tjarnargötu. (áður rækjuvinnsla Drafnar).

Heimsókn Egils sjávarafurðir
Frá heimsókn til Egils sjávarafurða.

Premium ehf sinnir iðgjaldaskráningu fyrir tvo sjóði, annars vegar Bayern Versicherung og hins vegar Lífsval Sparisjóðanna.
Bayern-Versicherung AG stofnaði Premium ehf í desember 2010 í samstarfi við Sparnað ehf. Formleg starfsemi Premium ehf hófst þann 25.01.2011.
Starfsmenn félagsins eru 10 í 8,5 starfsgildi. Í október 2014 voru starfsmenn fyrirtækisins 12 í 100% stöðugildi en vegna samdráttar í verkefnum eftir niðurstöðu Seðlabankans þann 18.06.2014 þurfti fyrirtækið að fækka starfsgildum niður í 8,5.
1,5 starfsgildi sinnir Lífsvali Sparisjóðanna og 7 starfsgildi sinna Bayern Versicherung.
Helstu verkefni félagsins eru:
- Skráning iðgjalda inn og út úr sjóðunum í bókhaldskerfi.
- Afstemmingar á bankareikningum.
- Innheimta á ógreiddum iðgjöldum.
- Skráning og utanumhald á ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á höfuðstól veðlána sem tekin voru vegna öflunar á íbúðarhúsnæði.
- Skráning og utanumhald á útgreiðslum til ellilífeyrisþega, öryrkja og erfingja sjóðanna

Framtíðarstefna fyrirtækisins er að vaxa og auka verkefnastöðu fyrirtækisins. Framkvæmdastjóri er Ásta Rós Reynisdóttir.

Heimsókn til Premium
Frá heimsókn til Premium.