Starfið í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga hefur gengið vel þessa viku þrátt fyrir miklar breytingar og skerðingu á kennslu. Vikan hefur þó farið mikið í að undirbúa starfið og vikurnar framundan.
Meðal þeirra breytinga sem þegar hafa orðið má nefna að nemendur hafa verið færðir milli kennara til að minnka samgang milli starfsstöðva og ekki verða haldnir tónfundir, tónleikar, tónfræði, samspil og hljómsveitaræfingar á meðan bannið er í gildi. Þá verða sumir kennarar með fjarkennslu og býður tónlistarskólinn upp á tæknilega aðstoð ef foreldrar og nemendur þurfa. Hugsanlega gætu orðið fleiri sem bættust í þann hóp.
Tónfræðigreinar verða kenndar í gegnum visku og munu nemendur fá verkefni send heim í pósti, sem þau vinna heima taka síðan mynd af verkefninu og senda til baka á tónfræðikennarann.
Þá hafa ráðstafanir um aukin þrif og sótthreinsun verið gerðar í skólanum.