Vegna frétta um rýmingu húsnæðis á Siglufirði vilja bæjarstjórn Fjallabyggðar og Veðurstofa Íslands koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.
Unnið er að byggingu varnarvirkja á Siglufirði eftir áætlun um snjóflóðavarnir fyrir byggðina sem gerð var árið 2001. Reistir hafa verið varnargarðar ofan byggðarinnar og sett upp stoðvirki á upptakasvæðum snjóflóða norðarlega í bænum. Eftir er að reisa umfangsmikil stoðvirki í Hafnarhyrnu ofan við miðbik byggðarinnar en þar hafa verið byggðir varnargarðar sem miðast við að bægja frá grjóthruni, aurspýjum og litlum snjóflóðum sem kunna að eiga upptök í neðri hluta hlíðarinnar. Stoðvirkin sem reist verða munu hins vegar draga úr hættu af völdum snjóflóða úr upptakasvæðum ofar í hlíðinni. Rýmingaráætlun fyrir Siglufjörð var endurskoðuð árið 2007 og tekið tillit til þeirra varnargarða sem reistir hafa verið. Áfram var gert ráð fyrir rýmingu húsnæðis á svæðum sem varin verða með stoðvirkjum sem reist verða á næstu árum. Þegar þau eru risin verður minni þörf á rýmingu húsnæðis vegna snjóflóðahættu eins og þegar er orðið syðst og nyst í bænum þar sem varnarvirki eru að fullu byggð.