Fréttatilkynning vegna mikillar úrkomu í Fjallabyggð undanfarna sólarhringa

Af gefnu tilefni vilja undirritaðir benda á eftirfarandi atriði vegna mikillar úrkomu í Fjallabyggð undanfarna sólarhringa.

  1. Magn úrkomu á utanverðum Tröllaskaga var gífurleg undanfarna sólarhringa. Úrkomumagnið var litlu minna en í hamfaraúrkomu sem varð 28. ágúst 2015 en náði yfir lengri tíma. 
  2. Undanfarin ár hefur Fjallabyggð verið markvisst að endurbæta holræsakerfið í báðum byggðarkjörnum með tilliti til mengunar- og umhverfismála ásamt því að gera kerfið betra varðandi aukið álag vegna flóða og úrkomu.
  3. Ef framangreint hefði ekki verið framkvæmt hefðu afleiðingarnar orðið mun verri, en raunin var. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mörg hús flæddi inn í, en tilkynnt var til tæknideildar um leka inn í kjallara í þremur húsum á Siglufirði og tvö í Ólafsfirði.
  4. Endurgerð holræsakerfisins er langt komin og lýkur á næsta ári. Þær endurbætur sem gerðar hafa verið koma í veg fyrir innstreymi sjávar inn í holræsakerfin en þegar mikið álag er á kerfunum þá safnast upp vatn í lögnunum þar sem há sjávarstaða heldur á móti rennslinu. Þá má benda á að lægsti punktur á Siglufirði er í kóta +1,1 en flóðhæð er frá +1,0 - +1,3.
  5. Til að draga úr hættu á innrennsli í kjallara húsa var dælt úr brunnum og lögnum í báðum bæjarkjörnum með tveimur slökkviliðsbílum og tveimur sérútbúnum dælubílum ásamt lausum dælum. 

 

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri

Ármann Viðar Sigurðsson, deildarstjóri tæknideildar