Fréttatilkynning vegna fyrirhugaðra verkfalla aðildarfélaga BSRB mánudaginn 9. mars og þriðjudaginn 10. mars

Hjá Fjallabyggð eru starfsmenn í tveimur stéttarfélögum innan BSRB eða Starfsmannafélagi Fjallabyggðar og Kili, Stéttarfélagi starfsmanna í almannaþjónustu. 

Alls stóðu 17 aðildarfélög BSRB fyrir atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sem stóð frá 17. - 19. febrúar og samþykktu félagsmenn í 15 þeirra að boða til aðgerða dagana 9. og 10. mars, 17. og 18. mars, 24. og 26. mars og 31. mars og 1. apríl hafi samningar ekki náðst. Frá og með 15. apríl mun hefjast ótímabundið verkfall hafi samningar ekki ekki náðst fyrir þann tíma.

Ljóst er að verkfallsaðgerðir munu hafa mikil áhrif á þjónustu sveitarfélagsins ef af verða. Skerðingar verða á þjónustu stofnana og í sumum tilfellum þarf að loka stofnunum eða starfsstöðvum/deildum innan stofnana.

Hér fyrir neðan er hægt að skoða áhrif verkfalls á starfsemi stofnana sveitarfélagsins ef af verkfalli verður dagana 9. og 10. mars.

Nýtt yfirlit verður gefið út fyrir næstu verkfallsdaga ef ekki hefur samist fyrir þann tíma.

Skrifstofa Fjallabyggðar

Þrír starfsmenn í verkfalli.

Áhrif á starfsemi: Símsvörun og afgreiðsla í móttöku verður skert, ekki verða bókaðir eða gefnir út reikningar þessa daga sem verkfall stendur yfir.  

Grunnskóli Fjallabyggðar

Skólarúta: Allir gæsluaðilar í skólarútu (rútuliðar) eru í verkfalli.

Áhrif á starfsemi: Skólarúta ekur samkvæmt áætlun þar sem kennsla er í MTR en þar sem engin gæsla er í rútunni ekur hún ekki grunnskólabörnum milli skólahúsa. Þar af leiðandi þurfa foreldrar að koma börnum sínum til og frá skólahúsi.

Starfstöð við Tjarnarstíg Ólafsfirði:

Allir skólaliðar í verkfalli. Allir stuðningsfulltrúar í verkfalli fyrir utan einn. Þar af leiðandi engin starfsmaður við gæslu í skólanum, þrif né vinnu í matsal.

Áhrif á starfsemi: Engin kennsla verður í starfsstöðinni við Tjarnarstíg á verkfallsdögum en þó munu nemendur 9. bekkjar mæta til að taka samræmt próf þriðjudaginn 10. mars á uppgefnum prófatíma. Foreldrar eru beðnir um að koma börnum sínum til og frá prófstað.

Nánari útfærsla verður send á foreldra nemenda á starfsstöðinni við Tjarnarstíg í gegnum Mentor.

Starfsstöð við Norðurgötu Siglufirði:

Hluti starfsmanna í verkfalli og því verður skert starfsemi í starfsstöðinni við Norðurgötu.

Skólaritari verður í verkfalli og því má búast við að símsvörun verði skert svo og annað utanumhald sem ritari sinnir daglega.

Hluti stuðningsfulltrúa verður í verkfalli og mun stuðningur sem þeir sinna falla niður og starfsemi Frístundar og Lengdrar viðveru verður skert. Hluti skólaliða er í verkfalli og því verður ræsting skólahúss og gæsla skert en nægileg til að halda skólastarfi gangandi þessa daga. Boðið verður upp á skólamat þessa daga.

Sundkennsla fellur niður þessa daga þar sem íþróttamiðstöð verður lokuð.

Nánari upplýsingar um áhrif verkfallsins og skerðingar á þjónustu verða sendar til foreldra með tölvupósti gegnum Mentor.

Frístund/lengd viðvera

Íþróttahús lokað þ.a.l. verða engar íþróttaæfingar þar.

Mánudagur:
Íþróttaskóli Glói 1.-2. bekkur; íþróttasalur Norðurgötu. Óbreytt starfsemi.
Badminton TBS  3.-4. bekkur; íþróttahús lokað. Tímar falla niður.
Kór TÁT  1.-4. bekkur;  óbreytt starfsemi.
Hringekja 1.-4. bekkur: 2 starfsmenn í verkfalli, 2 starfsmenn við störf og því skert starfsemi. Þeir nemendur sem eru í lengdri viðveru eftir Frístund ganga fyrir í Hringekju ásamt nemendum  sem eru skráðir í Hringekju úr 1. og 2. bekk en fara ekki í lengda viðveru.

Þriðjudagur:
Jazzskóli 1.-2. Bekkur;  íþróttasalur Norðurgötu. Óbreytt starfsemi.
Sund; Sundlaug lokuð. Tímar falla niður.
Blak 1.-4. Bekkur; BF – íþróttahús lokað. Tímar falla niður.
Hringekja 1.-4. bekkur: 2 starfsmenn í verkfalli, 2 starfsmenn við störf og því skert starfsemi. Þeir nemendur sem eru í lengdri viðveru á eftir Frístund ganga fyrir í Hringekju ásamt nemendum  sem eru skráðir í Hringekju úr 1. og 2. bekk en fara ekki í lengda viðveru.

Tölvupóstur með nánari upplýsingum verður sendur til foreldra gengum Mentor.

Lengd viðvera:

Mánudagur: 2 starfsmenn í verkfalli og 2 starfsmenn í vinnu. Skert starfsemi. Börn sem eru í Hringekju, kór, tónlistartímum og íþróttaskóla Glóa í Frístund OG eru einnig skráð í lengda viðveru fá þjónustu lengdrar viðveru.

Þriðjudagur: 2 starfsmenn í verkfalli og 2 starfsmenn í vinnu. Skert starfsemi. Börn sem eru í Hringekju, jazzskóla og tónlistartímum í Frístund OG eru einnig skráð í lengda viðveru fá þjónustu lengdrar viðveru.

Tölvupóstur með nánari upplýsingum verður sendur til foreldra gengum Mentor.

Íþróttamiðstöð Fjallabyggðar

Allir starfsmenn Íþróttamiðstöðva Fjallabyggðar að undanskildum einum starfsmanni verða í verkfalli.

Áhrif á starfsemi: Báðar starfsstöðvar íþróttamiðstöðva verða lokaðar þessa daga.

Bóka- og héraðsskjalasafn Fjallabyggðar

Allir starfsmenn Bóka- og héraðsskjalasafns að forstöðukonu undanskilinni eru í verkfalli.

Áhrif á starfsemi: 
Mánudagur: Bókasafnið Siglufirði  - Opið frá 13.00-17.00. Bókasafnið Ólafsfirði -  LOKAÐ.
Þriðjudagur: Bókasafnið Siglufirði -  LOKAÐ. Bókasafnið Ólafsfirði - Opið frá 13:00 - 17:00, með fyrirfara um færð og veður.

Leikskóli Fjallabyggðar

Leikskálar

Hluti starfsmanna í verkfalli. Starfsemi skert, ein deild lokuð.

Áhrif á starfsemi: Nautaskál: Einn starfsmaður í verkfalli, 4 börn heima hverju sinni.

Hvanneyrarskál: Eðlileg starfsemi.
Skollaskál: Deildarstjóri í verkfalli, deildin lokuð.
Selskál:  Einn starfsmaður í verkfalli, 3 - 4 börn heima hverju sinni.
Núpaskál: Eðlileg starfsemi.

Stjórnendur senda tölvupóst eða tilkynningar til foreldra með nánari upplýsingum.

Leikhólar

Hluti starfsmanna í verkfalli. Starfsemi skert. Ein deild lokuð fyrir hádegi og önnur eftir hádegi. Matráður í verkfalli. Enginn matur í boði.

Áhrif á starfsemi:

Álfhóll: Einn starfsmaður í verkfalli. Deildin opin fyrir hádegi. Fjögur börn heima hverju sinni. Enginn matur.
Hulduhóll: Tveir starfsmenn og afleysing í verkfalli. Helmingur barna verður fyrir hádegi 8:00-12:00 og helmingur eftir hádegi 12:00-15:00.  Enginn matur.
Tröllahóll: Deildarstjóri fyrir hádegi í verkfalli, deildin lokuð fyrir hádegi. Opið 12:00-15:00 fyrir hálfa deildina 10 börn á mánudag og hin 10 börnin á þriðjudag. Enginn matur.

Stjórnendur senda tölvupóst eða tilkynningar til foreldra með nánari upplýsingum.

Tónlistarskólinn á Tröllaskaga

Áhrif á starfsemi: Starfsemi/kennsla óbreytt en þrif falla niður í húsnæði tónlistarskólans í Ólafsfirði.

Tjarnarborg

Umsjónarmaður í verkfalli.

Áhrif á starfsemi: Tjarnarborg lokuð, engin starfsemi né viðburðir á meðan að verkfalli stendur. 

Félagsþjónusta

Áhrif á starfsemi:

Ólafsfjörður: Heimaþjónusta, liðveisla/stoðþjónusta og félagsstarf aldraðra fellur niður og ekki verður unnt að þjónusta með heimsendann mat.
Siglufjörður: Starfsemi óbreytt.

Fjallabyggðarhafnir

Hafnarvörður í verkfalli, yfirhafnarvörður við störf.

Áhrif á starfsemi: Skert þjónusta.

Þjónustumiðstöð

Tveir starfsmenn í verkfalli.

Áhrif á starfsemi: Skert þjónusta.