Fréttatilkynning frá Fjallabyggð
Áætlaður rekstrarafgangur bæjarsjóðs fyrir árið 2018 er 181 mkr.
Fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Fjallabyggðar fyrir árið 2018 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi 13. desember 2017.
Helstu niðurstöðutölur áætlunarinnar eru:
- Útsvarsprósenta er 14.48% og álagningarprósenta fasteignagjalda er óbreytt á milli ára.
- Skatttekjur ársins 2018 eru áætlaðar 1.212 mkr. en útkomuspá ársins 2017 er 1.178 mkr.
- Heildartekjur 2018 verða 2.731 mkr. en eru áætlaðar 2.272 mkr. í útgönguspá 2017.
- Gjöld ársins 2018 eru áætluð 2.529 mkr. en eru 2.094 mkr. fyrir árið 2017.
- Heildareignir sveitarfélagsins eru áætlaðar 4.818 mkr. og eigið fé er 2.992 mkr. eða 62% eiginfjárhlutfall.
- Skuldir og skuldbindingar hækka aðeins á milli ára, sem er tilkomin vegna hækkunar lífeyrisskuldbindinga og eru áætlaðar 1.826 mkr. Skuldaviðmið bæjarsjóðs er áætlað 67% fyrir 2018.
- Vaxtaberandi skuldir eru 405 mkr. en voru 536 mkr. árið 2015.
- Veltufé frá rekstri er áætlað tæplega 440 mkr. sem er tæplega 16,1%.
Framkvæmt verður fyrir 315,7 mkr.
Helstu framkvæmdir verða:
Skólalóðir leik- og grunnskóla 70 mkr.
Yfirlagnir malbiks og götur 50.5 mkr.
Holræsa- og vatnsveitukerfi 104.5 mkr.
Göngustígar og gangstéttir 15 m.kr.
Framkvæmdir á stofnunum eignasjóðs 20 mkr.
Rekstur Fjallabyggðar er afar traustur þrátt fyrir lægri tekjur á árinu sem er að líða, sem orsakast fyrst og fremst af sjómannaverkfalli og lægra fiskverði. Stærsta breytingin á rekstri sveitarfélagsins á árinu 2017 sem og 2018 er breytt rekstrarfyrirkomulag dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hornbrekku sem er orðið að B-hluta fyrirtæki innan Fjallabyggðar. Taka verður tillit til þess þegar gerður er samanburður milli ára. Einskiptisgreiðsla frá Jöfnunarsjóði vegna leiðréttingar fyrir árið 2016 verður nýtt til að greiða niður skuldir sveitarfélagsins og er skuldahlutfall þess afar lágt.