Framkvæmdir að hefjast í miðbænum.

Framkvæmdir eru nú að hefjast í miðbænum, á torgi og á svæðinu neðan kirkju. Páll Samúelsson, sem er Siglfirðingum að góðu kunnur, hefur fengið framkvæmdaleyfi til þess að byggja tröppur og hanna svæðið neðan kirkju og hefur hann fengið BÁS ehf. til þess að framkvæma verkið fyrir sig. Páll ákvað að ráðast í framkvæmdina til minningar um foreldra sína er bjuggu hér á Siglufirði. Framkvæmdin er því samvinnuverkefni bæjarins og Páls en hann mun bera kostnað af þessu verki. Leyfi til framkvæmda var gefið af tækni – og umhverfisnefnd. Teikningar af hönnuninni má sjá á bæjarskrifstofu en um mjög athyglisvert verkefni er að ræða. Á myndinni hér til hliðar má sjá hvernig hugmyndin er í grófum dráttum.Jafnframt eru að hefjast framkvæmdir við torgið en ákveðið hefur verið að taka upp þær hellur sem fyrir eru og breyta hönnun lítillega þannig að lagðar verða hellur í kross yfir torgið ásamt því að umhverfið verður snyrt til. Arnar H. Jónsson mun stýra þessu verkefni en áætlað er að því ljúki í júní.