Á morgun mun fagnefnd fyrirhugaðs framhaldsskóla í Ólafsfirði funda í Ólafsfirði.
Jón Eggert Bragason verkefnastjóri fyrirhugaðs framhaldsskóla hefur undanfarið heimsótt fyrirtæki á Siglufirði til að kanna áhuga þeirra á samstarfi við mótun námsframboðs við skólann. Óhætt er að segja að þessar heimsóknir hafi gengið vel og vel er tekið á móti honum. Hann hefur m.a. hitt framkvæmdarstjóra Heilbrigðisstofnunar Siglufjarðar Konráð Baldvinsson sem er mjög spenntur fyrir samstarfi vegna hugsanlegar sjúkraliða- og félagsliðabrauta innan skólans. JE-Vélaverkstæði hefur einn lýst áhuga á að vera með í mótun námsframboðs sem tæki mið að sérsviðum fyrirtækisins.
Einnig hefur Örlygur Kristfinnsson hjá Síldarminjasafninu lýst sig tilbúinn til að taka þátt í mótun ferðabrautar hins fyrirhugaða skóla.
Fyrir fund fagnefndarinnar á morgun mun Jón Eggert heimsækja fyrirtæki í Ólafsfirði. Hann mun m.a. heimsækja Skiltagerðina en þar á bæ hafa menn lýst áhuga á samstarfi við mótun námsframboð í steinsmíð, hönnun og skiltagerð. Auk þess mun hann heimsækja Vélfag en uppi eru hugmyndir um tengingu stærðfræðináms og þeirri tölvutækni sem þeir hafa uppá að bjóða.
Eins og áður segir mun fagnefndin hittast á morgun í Ólafsfirði. Fagnefndina skipar Jónína Magnúsdóttir skólastjóri Siglufirði, Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólastjóri Ólafsfirði, Anna Sigríður Hjaltadóttir ráðgjafi Dalvík, Garðar Lárusson áfangastjóri VMA og Valdimar Gunnarsson kennari MA.
Nefndin hittist annan hvern föstudag til skiptis í Ólafsfirði og á Dalvík. Nefndin vinnur að undirbúningi skólans og er vinna við námsframboð, kennsluhætti og rekstrarform komin á rekspöl. Bygginganefnd kemur til með að styðja sig við vinnu fagnefndarinnar og vinna þarfagreiningu byggða á henni.
Viðtal við menntamálaráðherra um framhaldsskólann.
http://dagskra.ruv.is/streaming/akureyri/?file=4400007/3