Fréttatilkynning frá bæjarstjórum Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar.
Vegna umfjöllunar svæðisútvarps sl. þriðjudag um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð telja fulltrúar sveitarfélaganna Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar í stýrihópi ,,til undirbúnings að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð" eins og segir í erindisbréfi hópsins, nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram: Síðastliðinn þriðjudag var langur vinnufundur stýrihóps um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð, en bæjarstjórar Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar eiga sæti í stýrihópnum auk þriggja fulltrúa menntamálaráðuneytis. Fulltrúar ráðuneytisins komu m.a. norður til að kynna sér staðhætti og var fundað og farið um bæði á Dalvík og í Ólafsfirði. Unnið er miðað við það að höfuðstöðvar hins nýja skóla verði í Ólafsfirði en að kennsla fari einnig fram á Dalvík, enda muni nemendur og kennarar skólans nýta sér nýjustu tækni við námið og skólinn byggi m.a. á dreifnámi.
Næsta skref í vinnu hópsins er að láta gera skoðanakönnun í sveitarfélögunum Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð þar sem kannaður verður áhugi og viðhorf væntanlegra nemenda, foreldra og atvinnulífsins á svæðinu til stofnunar skólans.
Undirbúningur hefur gengið vel og eru vonir bundnar við að skóli við utanverðan Eyjafjörð verði mikilvæg viðbót við aðra framhaldsskóla í Eyjafirði. Reiknað er með að skólinn geti tekið til starfa haustið 2009 þegar Héðinsfjarðargöng opna leiðina til Siglufjarðar.