Framhaldsskólanám í Fjallabyggð – fyrsta skrefið

Á sameiginlegum fundi skólanefndar og byggingarnefndar hins nýja framhaldsskóla, fyrr í dag, voru þau ánægjulegu tíðindi staðfest að fengist hefði samþykki menntamálaráðuneytis fyrir að bjóða upp á nám á framhaldsskólastigi á Siglufirði og í Ólafsfirði næsta vetur. Nemendum býðst að stunda fjarnám með stuðningi og utanumhaldi í heimabyggð.


Að sögn Jónu Vilhelmínu Héðinsdóttur, formans skólanefndar, verða næstu skref þau að leitað verður til skráðra nemenda eftir staðfestingu og skráningu í áfanga. Þegar skráning í áfanga liggur fyrir er unnt að fara að huga að ráðningu kennara.