Frábær Trilludagur laugardaginn 29. júlí 2023.
Trilludagar voru haldnir á Siglufirði í sjötta sinn síðastliðinn laugardag og þóttu þeir takast einstaklega vel og var góð stemning á bryggjunni allan daginn og veðrið gott til siglinga
Að þessu sinni voru það 9 eldhressir trillukarlar og fylgjdarfólk sem sáu um siglingarnar en það voru þeir Aðalbjörn Frímanns, Lúðvík Trausti Gunnlaugsson, Reynir Karlsson, Sverrir Björnsson, Andri Viðar Víglundsson, Sverrir Gunnarsson , Guðbrandur J Ólafsson, Þiðrik Unason og Gunnar Júlíusson á Örkinni.
Áætlað er að um 500 manns hafi farið á sjó á Trilludögum í ár og tók hver sigling frá 40-60 mínútur. Sjóstangir voru um borð og komu allir í land með fisk á grillið.
Þegar í land komið var aflinn grillaður en að vanda stóðu vaskir Kiwanismenn og konur vaktina í grilltjaldinu tilbúnir við flökun og skelltu aflanum á kolin og bauðst gestum að bragða á góðgætinu ásamt grilluðu grænmeti. Pylsur og drykkir voru einnig á boðstólum fyrir bornin.
Stúlli, Tóti og Gulli fluttu alla bestu slagarana á bryggjunni og gerðu stemminguna einstaka og Landabandið steig á svið eftir hádegið og hélt stemningunni áfram. Ungliðasveitin Smástrákar sveif um bryggjuna og létu sitt verk ekki eftir liggja. Frábærir krakkar. Björgunarsveitin Strákar önnuðust gæslu á sjó og vakt á bryggju. Frábært framtak allra.
Bestu þakkir til allra þeirra fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg, dagurinn er svo sannarlega ykkar þökk sé ykkur öllum. Þökkum þeim þúsundum gesta sem lögðu leið sína á Trilludaga í ár.
Fjallabyggð færir trillueigendum og trillukörlunum, félögum úr Kiwanisklúbbnum Skildi á Siglufirði, Smástrákum og Björgunarsveitinni Strákum, Fiskmarkaðnum á Siglufirði, bæjarstarfsmönnum og öllum þeim fjölmörgu sem að hátíðinni komu bestu þakkir fyrir þeirra þátttöku á Trilludögum 2023
Aðrir hápunktar dagsins voru Málþing síldarstúlkum til heiðurs sem haldið var fyrir fullu Bátahúsi Síldarminjasafnsins þar sem fyrirlesarar fjölluðu hver á sinn hátt um mikilvægi síldarstúlkna í sögulegu samhengi; hlutverk þeirra í síldariðnaðinum, í stétta- og kjarabaráttu kvenna, í baráttunni fyrir auknum jöfnuði kynjanna og síðast en ekki síst hlutverki þeirra og þýðingu í lífi þeirra nánustu. Kl. 15 var glæsilegt listaverk Arthúrs Ragnarssonar sem Ræs minningarfélag um síldarstúlkuna færði bæjarfélaginu að gjöf. Verkið, sem er minnisvarði um síldarstúlkur þjóðarinnar, stendur á nýsmíðaðri bryggju framan við safnhús Síldarminjasafnsins. Forsætisráðherra flutti ávarp við athöfnina og vígði verkið og síldarstúlkurnar af Róaldsplaninu voru heiðraðar sérstaklega.
Frá vígsluathöfn fylgdu gestir síldarstúlkunum á síldarsöltun og bryggjuball við Róaldsbrakkann.
Nokkrar myndir frá deginum.