20.02.2008
Svava Stefanía Sævarsdóttir tók þátt í Íslandsmótinu í fjölþraut í flokki 15-16 ára meyja sl. sunnudag en mótið fór fram í Reykjavík. Svava stóð sig frábærlega að vanda í keppni við efnilegustu stúlkur landsins. Hún bætti sig í 4 greinum af 5 og endaði í 5. sæti af þeim 22 keppendum sem mættu til leiks.
Þórarinn Hannesson tók þátt í Íslandsmóti öldunga í frjálsum um síðustu helgi. Hann tók þátt í alls 7 greinum í flokki 40-44 ára og bar sigur úr býtum í 4 þeirra. Hann bætti árangur sinn í þessum flokki í 4 greinum auk þess að keppa í 2 greinum í fyrsta sinn í 10-20 ár. Sérstaka athygli vakti að hann stökk 1.70m í hástökki, sem er 3. besti árangur sem náðst hefur í þessum aldursflokki frá upphafi. Heyrst hefur að félagar hans í Útsvari andi nú léttar en þeir eru sagðir hafa haft áhyggjur af því að hann slasaði sig fyrir keppnina við Akureyrarliðið þann 4. apríl n.k.