Fjármálaráðherra ásælist þjóðlendur á Norðurlandi

Fjármálaráðherra hefur, fyrir hönd íslenska ríkisins, afhent óbyggðanefnd kröfur sínar um þjóðlendur á vestanverðu Norðurlandi þ.e. Tröllaskaga. Óbyggðanefnd kallar nú eftir kröfum þeirra sem þar kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta. Frestur til að lýsa gagnkröfum í þau landsvæði sem þjóðlendukrafan tekur til rennur út þriðjudaginn 25. ágúst nk. Í stuttu máli er þjóðlendukröfum lýst þannig af hálfu fjármálaráðherra:

Í Fjallabyggð nær þjóðlendukrafa til Lágheiðar / Stífluafréttar og Almennings norðan Hrauna.
Í Dalvíkurbyggð nær þjóðlendukrafa til Almennings á Skíðdal / Sveinsstaðaafréttar,
Í Sveitarfélaginu Skagafirði nær þjóðlendukrafa til Almennings norðan Hrauna, Hrollleifsdalsafréttar og Flókadalsafréttar (Seljadals), Unadalsafréttar, Deildardalsafréttar og Kolbeinsdalsafréttar (Hólaafréttar).Hnjótaafréttar og Múlaafréttar.
Í Hörgárbyggð nær þjóðlendukrafa til Möðruvallaafréttar og Þorvaldsdalsafréttar.
Í Akrahreppi nær þjóðlendukrafa til hluta Silfrastaðaafréttar. 

Í fréttatilkynningu frá óbyggðanefnd kemur fram að nánari lýsingu og yfirlitskort er að finna á heimasíðu óbyggðanefndar http://www.obyggd.stjr.is/ og á skrifstofum viðkomandi sveitarfélaga og sýslumannsembætta. Kröfur þessar voru birtar með lögformlegum hætti í Lögbirtingablaðinu 22. maí.  Þar var skorað á þá er telja til eignarréttinda á þjóðlendukröfusvæðis ríkisins að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir óbyggðanefnd innan þriggja mánaða, nánar tiltekið í síðasta lagi þriðjudaginn 25. ágúst 2009. 

Óbyggðanefnd er sjálfstæður úrskurðaraðili sem hefur það hlutverk að 1) kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, 2) skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og 3) úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendu. Áréttað skal að verkefni óbyggðanefndar er að úrskurða um annars vegar kröfur fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins og hins vegar kröfur þeirra sem telja sig eiga öndverðra hagsmuna að gæta. 

Að loknum framangreindum þriggja mánaða fresti fer fram opinber kynning á heildarkröfum og stendur í einn mánuð. Þegar heildarkröfur liggja fyrir er svæðinu skipt í mál og boðað til fyrstu fyrirtöku. Mál eru síðan tekin fyrir eins oft og þörf er á, frekari gögn lögð fram, farið á vettvang, og leitast við að skýra málin að öðru leyti. Loks fer fram svokölluð aðalmeðferð, með tilheyrandi skýrslutökum og munnlegum málflutningi. Að lokinni aðalmeðferð eru mál tekin til úrskurðar og úrskurður kveðinn upp í kjölfarið.