Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2009

Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2009 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar mánudaginn 26. janúar. Fjárhagsáætlunin einkennist af ströngu aðhaldi, en inniheldur þó framkvæmdaliði upp á tæplega 118 mkr. Sérstaklega var hugsað til þess að velja framkvæmdaliði sem væru mannfrekir, til eflingar atvinnulífs sveitarfélagsins. 

Álagningarhlutfall útsvars hækkaði um 0,25% er nú 13,28%, í samræmi við heimild sem sveitarfélögum var veitt í desember. Gert er ráð fyrir útsvarstekjum að upphæð 730 mkr.

Mjög mikil vinna hefur verið unnin við undirbúning áætlunarinnar að þessu sinni og hafa starfsmenn fjármáladeildar, deildarstjórar, forstöðumenn og bæjarfulltrúar lagt sitt af mörkum við undirbúning.

Við vinnu þessarar fjárhagsáætlunar hefur verið farið vandlega yfir alla liði rekstrar og ýmsar erfiðar ákvarðanir teknar.
Laun bæjarfulltrúa og nefndarlaun hafa verið lækkuð um 10% og tillaga hefur verið gerð um fækkun nefnda, og fækkun nefndarmanna í hafnarstjórn, úr 7 í 5. Lagt er til að segja upp fastri yfirvinnu starfsmanna sem hafa 300 þkr. heildarlaun eða hærri og minnka hana um 10%. Einnig verður öllum föstum akstursgreiðslum sagt upp. Kostnaður vegna ferða innan sveitarfélagsins verður lækkaður og kostnaður vegna námskeiða hefur einnig verið lækkaður.
Í þessari áætlun er ekki gert ráð fyrir að starfsfólki verði sagt upp.

Niðurstaða B hluta er neikvæður um 137. mkr en A hluti sýnir jákvæða niðurstöðu um 27 mkr.
Heildartekjur A og B hluta eru 1.604 milljónir kr. og þar af eru skatttekjur og framlag Jöfnunarsjóðs 1.144 milljónir kr. eða sem nemur 71,2%. Skatttekjur og framlag Jöfnunarsjóðs hækka um 11 mkr. frá árinu 2008 m.v. endurskoðaða áætlun eða um 1%.

Heildarútgjöld bæjarsjóðs eru 1.559 mkr. án fjármagnsliða. Þar af er launakostnaður 856 mkr. eða 55%. Fjármagnsgjöld eru hærri en fjármunatekjur sem nemur 156 mkr. og er rekstrarniðurstaða neikvæð að fjárhæð 110 mkr. samanborið við 178 mkr. samkvæmt endurskoðaðri áætlun 2008. Ekki er gert ráð fyrir nýjum lántökum á árinu.

Samkvæmt sjóðstreymisyfirliti er gert ráð fyrir að handbært fé frá rekstri verði 184 mkr. eða sem nemur 11,5%. Er hér um að ræða hækkun um 0,9 mkr. miðað við endurskoðaða fjárhagsáætlun 2008.

Ljóst er að árið 2009 mun verða afar erfitt rekstrarár og að gæta þarf sérstaks aðhalds í öllum rekstri.  Rætt hefur verið um, að endurskoða fjarhagsáaætlun þessa á vordögum.

Þórir Kr. Þórisson
bæjarstóri Fjallabyggð