Bæjarstjórn Fjallabyggðar kom saman til fundar 22. desember 2010, þar sem aðalfundarefnið var fjárhagsáætlun 2011 og þriggja ára áætlun 2012 - 2014.
Í fundargerð kemur fram að í fjárhagsáætlun 2011 sem samþykkt var með 9 atkvæðum eru heildartekjur áætlaðar 1.616 m.kr.
Þar af eru skatttekjur 885 m.kr. sem eru 54% af tekjum og framlag Jöfnunarsjóðs 230 m.kr. eða sem nemur 14% af tekjum.
Heildarútgjöld sveitarfélagsins eru áætluð 1.570 mkr. án fjármagnsliða. Þar af er launakostnaður 846 mkr. sem er 52% af tekjum.
Rekstrarniðurstaða fjárhagsáætlunar Fjallabyggðar fyrir árið 2011 vegna A hluta sveitarsjóðs er jákvæð upp á 39 mkr.
Fjármagnsgjöld eru hærri en fjármunatekjur sem nemur 34 mkr. og er rekstrarniðurstaða samstæðunnar jákvæð að fjárhæð 11 mkr. (0,7% af tekjum).
Veltufé frá rekstri er áætlað 165 mkr. sem gerir 10,2% af tekjum.
Í þessari áætlun er gert ráð fyrir framkvæmdum upp á 100 mkr.
Einnig er gert ráð fyrir nýjum lántökum á árinu fyrir 20 mkr.
Hins vegar mun sveitarfélagið greiða niður skuldir um 83 mkr.
Handbært fé í árslok 2011 er áætlað 156 mkr.
Á fundinum var samþykkt tillaga um 5% lækkun nefndarlauna frá 1. janúar 2011.
Bæjarstjórn samþykkti með 9 atkvæðum að vísa þriggja ára áætlun til bæjarráðs milli umræðna í bæjarstjórn.
Greinargerð bæjarstjóra vegna fjárhagsáætlunar 2011 og þriggja ára áætlunar 2012-2014 má finna á þessari vefslóð:
http://www.fjallabyggd.is/skrar/.pdf/stefnuraeda_fjarhagsaaetl_2011_s_umr.pdf