Á bæjarstjórnarfundi þann 15. desember fór fram seinni umræða um fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2021, ásamt þriggja ára áætlun 2021 – 2024. Var áætlunin samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.
Samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 ber merki þess að Covid-19 faraldurinn sem tekist hefur verið við á árinu og hefur haft mikil efnahagsleg áhrif á Íslandi og í öllum heiminum. Áætlað er að niðurstaða af rekstri ársins 2020 verði 164,2 milljónum króna lakari en áætlun ársins gerði ráð fyrir. Ástæða lakari afkomu eru m.a. minni tekjur frá Jöfnunarsjóði og aukin útgjöld vegna Covid-19, launabreytinga og annarra kjarasamningsbundinna breytinga sem auka rekstrarkostnað sveitarfélagsins.
Á fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 er hugað að barnafjölskyldum og starfsemi sem snýr að börnum og unglingum. Verð á máltíðum og hressingum í leik- og grunnskóla verða óbreytt frá líðandi ári. Frístundastyrkir til barna fædd 2003 – 2017 verða hækkaðir, sveitarfélagið bætir í styrk til UÍF vegna barna- og unglingastarfs og í leik- og grunnskóla verður fjármagn sett í þróunarstarf. Almennt munu gjaldskrár hækka um áætlaðar verðlagsbreytingar eða 2,8%.
Bæjarstjórn hefur ákveðið að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts íbúðarhúsnæðis úr 0,49 í 0,48 sem gerir 2,08% lækkun. Samhliða þessu var tekjumörkum í reglum um afslátt á fasteignaskatti hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum breytt og hámarksfjárhæð afsláttarflokka aukin verulega hjá hjónum en meðaltals hækkun var 18,8%, hjá einstaklingum var meðaltals hækkun afsláttarflokka 2,9%. Afsláttur á fasteignaskatti er reiknaður út frá tekjum samkvæmt skattaframtali og þarf ekki að sækja um þennan afslátt sérstaklega.
Heildartekjur samstæðu A og B hluta eru áætlaðar tæplega 3,1 milljarður á árinu 2021 en heildar rekstrarkostnaður um 2,9 milljarðar. Þar af eru launaliðir um 1,9 milljarðar eða 61% af tekjum samstæðunnar, annar rekstrarkostnaður um 0,9 milljarður og afskriftir um 186 milljónir. Heildartekjur í A-hluta eru áætlaðar tæpir 2,4 milljarðar króna sem og rekstrarkostnaður Þar af eru launaliðir um 1,5 milljarðar króna eða 62% af tekjum A-hluta, annar rekstrarkostnaður um 0,8 milljarðar króna. og afskriftir um 133 milljónir króna.
Rekstrarniðurstaða samstæðu A og B hluta fyrir fjármagnsliði er áætluð neikvæð um 25 milljónir króna. Þar af er neikvæð rekstrarafkoma A hluta 96 milljónir króna. Að teknu tilliti til fjármagnsliða verður rekstrarniðurstaða samstæðunnar neikvæð um 40 milljónir króna og neikvæð rekstrarniðurstaða A hluta 75 milljónir króna. Hrein fjármagnsgjöld samstæðu eru áætluðuð 15 milljónir króna.
Í sjóðstreymisyfirliti er handbært fé frá rekstri í samstæðu 2021 áætlað rúmar 225 milljónir króna, afborganir langtímalána eru áætlaðar 35 milljónir króna og fjárfestingar 154 milljónir króna. Afborganir langtímalána eru áætlaðar 29 milljónir króna í A hluta. Þrátt fyrir að Fjallabyggð, eins og önnur sveitarfélög, hafi ekki farið varhluta af áhrifum Covid-19 þá nýtur sveitarfélagið þess hve vaxtaberandi skuldir þess eru lágar, ekki er gert ráð fyrir lántöku á árinu 2021.
Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar 2021, ásamt þriggja ára áætlun 2021 – 2024 má finna hér: Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar 2021 – 2024