Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar 2018 samþykkt

Síðari umræða um fjárhagsáætlun 2016 og þriggja ára áætlun 2017 - 2019 fór fram á fundi bæjarstjórnar 13. desember sl.

Af mörgu er að taka í áætluninni en m.a. er brugðist við þörfum grunnskólans vegna breytts kennslufyrirkomulags og fest eru kaup á búnaði til íþróttakennslu og nýjum tölvubúnaði. Nýr fundarbúnaður verður settur upp í báðum sölum Tjarnarborgar og ný saunahús verða sett upp í sundlaugum Fjallabyggðar. Áfram verður unnið að innleiðingu verkefnisins Heilsueflandi samfélag og hækkar frístundastyrkur til barna úr 20.000 kr. í 30.000 kr. árið 2018. Félagsstarf og dagvist aldraðra hefur verið eflt í Ólafsfirði og mun starfsemin í auknum mæli fara fram í Húsi eldri borgara.

Fest verða kaup á nýjum mannskapsbíl fyrir Slökkvilið Fjallabyggðar á Siglufirði, framlög aukin til búnaðarkaupa og húsnæði slökkviliðsins í Ólafsfirði klætt að utan að hluta. Helstu viðhaldsverkefni á fasteignum Fjallabyggðar eru endurnýjun á innanhússklæðningu í íþróttahúsi á Siglufirði, utanhússviðgerðir á Ráðhúsi, viðhald á húsnæði Menntaskólans á Tröllaskaga auk viðhaldsverkefna innanhúss á félagslegu leiguhúsnæði í Ólafsfirði.

Gjaldskrárhækkunum er stillt í hóf og gjaldskrár einfaldaðar eftir þörfum. Almennt hækka gjaldskrár um 2% á milli ára en verð á skólamáltíðum í Grunnskóla Fjallabyggðar verður ekki hækkað á árinu 2018.

Rekstur Fjallabyggðar er afar traustur þrátt fyrir lægri tekjur á árinu sem er að líða, sem orsakast fyrst og fremst af sjómannaverkfalli og lægra fiskverði. Stærsta breytingin á rekstri sveitarfélagsins á árinu 2017 sem og 2018 er breytt rekstrarfyrirkomulag dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hornbrekku sem er orðið að B-hluta fyrirtæki innan Fjallabyggðar. Taka verður tillit til þess þegar gerður er samanburður milli ára. Einskiptisgreiðsla frá Jöfnunarsjóði vegna leiðréttingar fyrir árið 2016 verður nýtt til að greiða niður skuldir sveitarfélagsins og er skuldahlutfall þess afar lágt.

Reiknað er með eftirfarandi forsendum í áætluninni:

Áætlaður rekstrarafgangur bæjarsjóðs fyrir árið 2018 er 181 mkr.

  1. Útsvarsprósenta er 14,48% og álagningarprósenta fasteignagjalda er óbreytt á milli ára.
  2. Skatttekjur ársins 2018 eru áætlaðar 1.212 mkr., en útkomuspá ársins 2017 er 1.178 mkr.
  3. Heildartekjur 2018 verða 2.731 mkr., en eru áætlaðar 2.272 mkr. í útkomuspá 2017.
  4. Gjöld ársins 2018 eru áætluð 2.529 mkr., en eru 2.094 mkr. fyrir árið 2017.
  5. Heildareignir sveitarfélagsins eru áætlaðar 4.818 mkr. og eigið fé er 2.992 mkr. eða 62% eiginfjárhlutfall.
  6. Skuldir og skuldbindingar hækka aðeins á milli ára, sem eru tilkomnar vegna hækkunar lífeyrisskuldbindinga og eru áætlaðar 1.826 mkr. Skuldaviðmið bæjarsjóðs er áætlað 67% fyrir 2018.
  7. Vaxtaberandi skuldir eru 405 mkr., en voru 536 mkr. árið 2015.
  8. Veltufé frá rekstri er áætlað tæplega 440 mkr., sem er tæplega 16,1%.

Við gerð fjárhagsáætlunar er lögð áhersla á styrkingu innviða sveitarfélagsins og bætta þjónustu.

Framkvæmt verður fyrir 315,7 milljónir á árinu og eru helstu framkvæmdir:

a) Skólalóðir leikskóla og grunnskóla 70 mkr. 
b) Yfirlagnir malbiks og götur 50.5 mkr.
c) Holræsa- og vatnsveitukerfi 104.5 mkr.
d) Göngustígar og gangstéttir 15 mkr.
e) Framkvæmdir á stofnunum eignasjóðs 20 mkr.

Þá er gert ráð fyrir fjármagni til smærri umhverfisverkefna til fegrunar bæjarkjarnanna. Vinnuskóli Fjallabyggðar verður efldur sem og starfsemi þjónustumiðstöðvar.

Bæjarstjórn þakkar bæjarstjóra, deildarstjóra stjórnsýslu og fjármála og öðrum starfsmönnum bæjarfélagsins fyrir þeirra aðkomu að gerð fjárhagsáætlunar og ánægjulegt samstarf.

Bæjarstjórn óskar íbúum Fjallabyggðar gleðilegrar hátíðar.

Rekstraryfirlit 2018.pdf 
Fjárhagsáætlun samantekt - yfirlit.pdf 
FB.Málaflokkayfirlit 2018.pdf
FB.Málaflokkayfirlit 2018.samanburður.pdf
Forsendur_fjarhagsaaetlunar_2018-2021_13.12.17.pdf
Fb_framkvaemdir_2018.pdf