Fjallabyggð hefur eins og fleiri sveitarfélög ritað undir viljayfirlýsingu við Greenstone ehf. um byggingu allt að 50.000 fermetra gagnavers á lóð sveitarfélagsins. Undirritunin felur í sér að tekin hefur verið frá lóð í Fjallabyggð sem nýta megi til uppbyggingu gagnavers. Hlutverk Greenstone ehf. í þessu samkomulagi er að sjá um að kynna lóðina sem vænlegan kost undir netþjónabú fyrir fyrirtækjum erlendis í netþjónastarfsemi. Eins og flestir vita er kæling netþjónanna orkufrek og því telst Ísland góður kostur með sína vistvænu orku.
Fjallabyggð er þó ekki einungis að bjóða land undir slíka starfsemi. Við gerð ganga frá Ólafsfirði til Héðinsfjarðar kom í ljós að meðalhiti inni í Ósbrekkufjalli er um 4° og því gæti verið góður kostur að staðsetja netþjónabú inni í fjallinu þar sem slíkt mundi minnka þörf á kælingu til muna. Auk þess er um 2° kalt vatn í fjallinu sem gæti einnig nýst til kælingar.
Vænta má, að ef Greenstone ehf. nái samningum við aðila í netþjónastafsemi um uppbyggingu á netþjónabúi í Fjallabyggð, geti hér skapast allt að 20 bein störf og allt að 20 óbein störf bæði í sveitarfélaginu og nágrannasveitarfélögum.