Fjallabyggð fagnar vatnsfundi

Í viðtali í hádegisfréttum útvarps í gær greindi Þórir Kristinn Þórisson bæjarstjóri frá því að sveitafélagið hygðist nýta vatnið í Héðinsfjarðargöngunum til neyslu, iðnaðar og jafnvel útflutnings. Hann sagði vatnsfundinn mikinn feng fyrir sveitarfélagið og svo mikið vatn væri á svæðinu að það gæti dugað öllu Eyjafjarðarsvæðinu.

Mikill vatnsflaumur í Héðinsfjarðargöngum Ólafsfjarðarmegin hefur verulega hamlað gangagerð þar frá því að framkvæmdir hófust. Talið er að nú streymi þar um 500 lítrar af vatni á sekúndu inn í göngin á nokkrum stöðum, en vatnsstreymið náði hámarki í síðustu viku þegar gangagerðarmenn sprengdu sig inn í mikla vatnsæð.

Þórir sagði í viðtalinu að sveitarfélagið renndi hýrum augum til vatnsins. Hann sagði vatnið koma vel út sem neysluvatn í rannsóknum og að öll aukaefni séu innan viðmiðunarmarka.

Gangagerð í Héðinsfjarðargöngum Ólafsfjarðarmegin er hátt í sex mánuðum á eftir áætlun, en að sögn Þóris verður vatnið nýtt um leið og tækifæri gefst.

Þórir sagði einnig að líkleg að vatn yrði mikils virði í framtíðinni, eins og olía sé í dag. Hann sagði vatnsfundinn tækifæri til uppbyggingar og atvinnusköpunar og stefnt sé á að nýta það til þess.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér. http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4371310/5