Vinninshafar
Fjallabyggð og félagasamtök í Fjallabyggð fengu úthlutað menningarstyrkjum frá Menningarráði Eyþings þann 19. mars sl. við hátíðlega athöfn í Menningarmiðstöð Þingeyinga – Safnahúsinu á Húsavík. Það er gleðilegt frá því að segja að allir aðilar innan Fjallabyggðar sem sóttu um, fengu styrki til menningarmála.
- Ungmennafélagið Glói á Siglufirði fékk styrk til að halda ljóðahátíðina Glóð í byrjun september.
- Menningarnefnd Fjallabyggðar fékk styrk fyrir hönd Sjómannadagsráðs Ólafsfjarðar til að halda myndlistanámskeið fyrir börn með áherslu á hafið og verður afraksturinn sýndur á Sjómannadaginn.
- Þjóðlagahátíðin á Siglufirði fékk styrk en hátíðin er 10 ára í sumar.
- Jassklúbbur Ólafsfjarðar var styrktur til að halda Blúshátíð í Ólafsfirði undir heitinu; Norðurlandskvöld en Blúshátíðin er einnig haldin í tíunda sinn í lok júní.
- Stuttmyndafestivalið Stulli er samstarf félagsmiðstöðva á svæðinu og var styrkur veittur til verkefnisins en félagsmiðstöðvarnar á Siglufirði og í Ólafsfirði eru þátttakendur í því.
- Listahátíðin ,,List án landamæra“ er samstarfsverkefni ýmissa félaga, bæði fatlaðra og ófatlaðra og ætla fjölmargir listamenn á Siglufirði og í Ólafsfirði að halda sýningar í maí.