Mynd: Úr félagsstarfi eldriborgara
Fjallabyggð fékk í vikunni ákaflega mikilvæga hvatningu frá Félagsmálaráðuneytinu þegar ráðuneytið veitti sveitarfélaginu 5 milljónir króna styrk til að setja af stað nýsköpunar- og þróunarverkefni öldrunarþjónustu í Fjallabyggð. Styrknum er ætlað að standa undir kostnaði við verkefnisstjórn og aðkeypta sérfræðivinnu á komandi misserum.
Fjallabyggð hefur, líkt og fram hefur komið í fréttum, um nokkurra mánaða skeið haft frumkvæði að undirbúningi verkefnis er varðar samhæfingu, fræðslu og gæðaþróun og áformum um nýsköpun og þróunarverkefni samhliða eflingu velferðartækni í þjónustu innan velferðarþjónustu sveitarfélagsins.
Styrkveiting ráðuneytisins byggir á áherslum sem fram koma í Byggðaáætlun 2018-2024, stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, stefnu um nýsköpun og tækni í velferðarþjónustu og áforma um samstarfsverkefni Fjallabyggðar og HSN á sviði nýsköpunar og þróunar í sameiginlegum þjónustuþáttum. Einnig er mikill styrkur í góðu samstarfi sveitarfélagsins, HSN og Heilbrigðis- og velferðartækniklasa Norðurlands.
Mikilvægur þáttur í vinnu sveitarfélagsins undanfarna mánuði hefur legið í undirbúningi sérsamninga við Sjúkratryggingar Íslands og Heilbrigðisráðuneyti varðandi þróunarverkefni á sviði dagþjálfunar fyrir eldra fólk. Sú undirbúningsvinna fær nú aukinn kraft vegna þess stuðnings og framsýni sem felst í styrkveitingu Félagsmálaráðuneytisins.
Á næstu vikum verða lögð áhersla á að vinna framkvæmdaáætlanir um samstarf og innleiðingu ákveðinna nýjunga í samstarfi, tækni og þjónustu í velferðar- og stuðningsþjónustu sveitarfélagsins og HSN við eldra fólk. Mikilvægur þáttur í því verður fræðsla og kynningarstarf fyrir notendur og aðstandendur þeirra og starfsfólk sem leggja mun grunn að uppbyggingu að enn öflugri félagsþjónustu til framtíðar, sem grundvallast á samhæfingu og velferðar- og heilbrigðistækni.