Ferðamálastofa úthlutaði styrkjum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til 28 verkefna árið 2023 fyrir alls 550 milljónir. Fjallabyggð fékk úthlutað styrkjum til tveggja verkefna að upphæð rúmlega 13. milljóna króna. Annars vegar styrk að upphæð kr. 10.205.205 til stikunar og merkingar Botnaleiðar milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og hins vegar styrk að upphæð kr. 2.837.376 vegna gönguleiðar að Selvíkurvita og rústum Evangers, 1. Hluti.
Verkefnið stikun og merkingar Botnaleiðar milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar snýr að gönguleið, sem í daglegu tali er kölluð Botnaleið sem og liggur frá Garði í Ólafsfirði um Skeggjabrekkudal, Möðruvallaháls, sunnan Ámárhyrnu um Hólsskarð ofan í Siglufjörð. Leiðin er greiðfær en þarfnast viðhalds á leiðarstikum og öðrum merkingum. Botnaleið er vinsæl göngu, - hlaupa- og hjólaleið og afar skemmtileg til útivistar. Leiðin hefur verið nýtt í utanvegahlaup. Það er vilji sveitarfélagsins að framboð á merktum leiðum verði aukið á komandi árum og öryggi ferðafólks tryggt með bættum merkingum. Mesta hæð gönguleiðarinnar eru um 630 m.
Verkefnið gönguleið að Selvíkurvita og rústum Evangers, 1. hluti er hönnun og lagning 3 km gönguleiðar frá Skútuá við Ráeyri að Selvíkurvita. Stígurinn mun liggja að og frá rústum Evanger verksmiðjanna. Hér er um innviðauppbyggingu að ræða sem stuðlar að bættu öryggi ferðamanna og skapar nýtt aðdráttarafl á áður fáfarinni leið. Hér verður til tilvalin gönguleið fyrir þá sem vilja skoða menningarminjar á borð við rústir Evanger verksmiðjunnar og ganga yfir að Selvíkurvita sem fyrirhugað er að endurbyggja í upprunalegri mynd. Gönguleiðin verður á allra færi og kjörið að njóta og vinda ofan sér með aðstoð kyrrðarinnar í náttúrunni en um leið soga í sig orkuna úr hinum margrómaða Siglufirði og njóta útsýnis yfir fjörðinn frá þessum stað.
Verkefnið mun auka gildi svæðisins til náttúruupplifunar og útiveru og verða aðdráttarafl fyrir heimafólk jafnt sem ferðamenn að verðmætum slóðum í Siglufirði. Ætlunin er að vinna verkefnið í þremur áföngum og í fyrsta áfanga verður aðstaða bílastæða bætt og aðgengi að rústum Evanger, ca. 600 m. löng leið, einnig nýjar merkingar við rústir Evanger og annarra þekktra fornminja við gönguleiðina. Í öðrum áfanga er gert ráð fyrir 1 km náttúrustíg til viðbótar áleiðis að Selvíkurvita. Þriðji og síðasti áfangi er síðasti kílómetrinn að Selvíkurvita.
Framkvæmdasjóðurinn fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Heimilt er að fjármagna framkvæmdir sem snúa að öryggi ferðamanna, náttúruvernd og uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja.