Fjárhagsáætlun 2003

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 30. janúar sl. fjárhagsáætlun fyrir árið 2003 og þriggja ára áætlun áranna 2004 - 2006.

Ég mun nú greina frá því hvernig fjárhagsáætlun ársins 2003 lítur út en ekki fjalla um þriggja ára áætlun að þessu sinni.
Áætlun ársins og þriggja ára áætlun er hægt að nálgast á bæjarskrifstofum ef áhugi er fyrir því að kynna sér efni þeirra nánar auk þess sem helstu tölur eru birtar á heimasíðu Siglufjarðarkaupstaðar.
Ég mun í þessum pistli stikla á stóru og setja tölur fram í töflum og myndrænt jafnhliða umfjölluninni því oft áttar fólk sig betur á málum þegar þau eru þannig sett fram. Breyting á framsetningu ársreikninga og áætlana. Miklar breytingar eru orðnar á framsetningu ársreiknings og bókhalds sveitarfélaga frá því sem áður var. Starfsemi sveitarfélaga er nú skipt upp í tvo aðskilda hluta, A og B hluta. A hlutinn felur í sér alla þá starfsemi sem eingöngu er kostuð af skatttekjum en B hlutinn heldur utan um starfsemi fyrirtækja bæjarins sem rekin eru fyrir þjónustutekjur og eiga með réttu að standa undir rekstrinum. Þar er um að ræða Fráveitu, Vatnsveitu, Hafnarsjóð og Íbúðasjóð. A hlutinn er í raun gamli bæjarsjóðurinn sem nú er skipt upp í þrjú svið, Aðalsjóð, Eignasjóð og Þjónustustöð. Aðalsjóður rekur alla þjónustustarfsemi bæjarins ef frá er talin áhaldahús og vélamiðstöð samkvæmt eldri framsetningu. Eignasjóður eignast og rekur allar eignir bæjarins með því í upphafi að kaupa þær af Aðalsjóði, s.s. skólahúsnæði, íþróttahús og sundlaug og leikskóla svo eitthvað sé nefnt og leigir þær síðan viðkomandi stofnunum innan Aðalsjóðs. Þjónustustöð tekur síðan við hlutverki áhaldahúss og vélamiðstöðvar. Eftirfarandi tafla sýnir rekstrar- og framkvæmdayfirlit sjóða bæjarins fyrir árið 2003 og fyrirhugaðar fjárfestingar á árinu: Eins og sést í töflunni er gert ráð fyrir að skatttekjur verði samtals 427,5 millj. króna sem skiptist þannig að útsvarstekjur eru stærstur hluti teknanna eða 291,5 millj. króna, fasteignaskattar 36,3 millj. króna og framlög úr Jöfnunarsjóði 85 millj. króna. Með nýjum bókhaldsbreytingum færast jafnframt undir þennan lið tekjur af lóðarleigu að fjárhæð 14,7 millj. króna en þessar tekjur færðust áður á málaflokkinn Fasteignir sem með tilkomu Eignasjóðs er ekki notaður lengur. Rekstur málaflokka. Þegar rekstur málaflokka innan Aðalsjóðs er skoðaður má sjá að fræðslumál taka mest til sín eða tæp 50% skatttekna. Þar á eftir koma æskulýðs- og íþróttamál en í þau fara 13,8% skatttekna. Eftir breytingar á framsetningu fjárhagsáætlana og ársreikninga sveitarfélaga koma sveitarfélög væntanlega til með að freista þess að halda rekstri A hluta þannig að hann verði innan við 100% af skatttekjum, þ.e. að skatttekjur dugi til að reka A hlutann. Eins og sjá má af yfirlitinu er gert ráð fyrir að A hluti hjá okkur fari um 2,7% fram yfir skatttekjur en það skýrist á því að til þurfa að koma framlög frá Aðalsjóði til tveggja B hluta fyrirtækja, Fráveitu og Íbúðasjóðs, vegna tapreksturs þeirra. Framlögin nema samtals rúmum 30 millj. króna. Stefnan þarf að vera sú að í framtíðinni nái þessi B hluta fyrirtæki að standa undir sér sjálf þannig að ekki þurfi að koma til framlaga af þessu tagi en um nokkurn tíma er fyrirséð að ekki verður hjá framlögum komist. Þegar reksturinn er tekinn saman, þ.e. A og B hluti, er gert ráð fyrir lítilsháttar rekstrarafgangi upp á um 50 þús. kr. Til samanburðar má geta þess að fjárhagsáætlun ársins 2002 gerir ráð fyrir hallarekstri að fjárhæð um 3,2 millj. króna. Fjárfestingar og framkvæmdir. Í ofangreindri töflu sést að til fjárfestinga er gert ráð fyrir að setja um 62,3 millj. króna. Þær skiptast þannig á einstaka sjóði: Stærstu framkvæmdaliðir ársins í gatnagerð og fráveitu. Gert er ráð fyrir fjárfestingum hjá Eignasjóði fyrir 38 millj. króna. Langstærstur hluti þeirrar fjárhæðar fer til framkvæmda við gatnagerð eða 20 millj. króna. Ráðist verður í endurnýjun Gránugötu og Tjarnargötu í samvinnu við Vegagerðina en þetta er gríðarstór framkvæmd sem við höfum beðið eftir lengi. Í sama útboði verður boðinn út stór verkþáttur hjá Fráveitunni en þar er um að ræða nýjan dælubrunn efst við Gránugötu og nýja meginlögn niður þá götu og hluta Tjarnargötu og Aðalgötu með bráðabirgðaútrás í sjó fram. Þegar þeirri framkvæmd er lokið verður engin fráveituútrás lengur í smábátahöfnina og við því endanlega búin að leysa okkar stærsta einstaka vandamál hvað losun skólps varðar. Kostnaður við fráveituframkvæmdir er áætlaður um 13 millj. króna þannig að samanlagt er gert ráð fyrir framkvæmdum við gatnagerð og fráveitu fyrir 33 millj. króna á árinu. Endurbætur á skóla- og íþróttahúsnæði. Á árinu er gert ráð fyrir að ljúka framkvæmdum við endurbætur skólahúsnæðisins við Norðurgötu. Er um að ræða fimmta og síðasta áfanga framkvæmda og óhætt að fullyrða að þegar verkinu lýkur stöndum við uppi með glæsilegt skólahúsnæði sem við getum verið stolt af. Er víst að það skapar góða umgjörð um það mikla og góða innra starf sem fram fer í skólanum í dag. Til endurbóta á sundlaug og íþróttahúsi verður varið 6 millj. króna en meginhluti þeirrar fjárhæðar fer væntanlega í það að koma upp aðstöðu til líkamsræktar. Verður því frestað enn um sinn að klára framkvæmdir við einangrun og ímúr klæðningu utanhúss. Framkvæmdir Hafnarsjóðs. Hjá Hafnarsjóði er gert ráð fyrir framkvæmdum fyrir um 26 millj. króna þar sem hlutur okkar verður rúmar 10 millj. króna. Ráðist verður í framkvæmdir við vesturkantinn í smábátahöfninni og einnig byggingu svokallaðrar Roaldsbryggju út frá Síldarminjasafninu auk þess sem dýpkað verður í smábátahöfninni. Metnaðarfull áætlun. Fjárhagsáætlun ársins er metnaðarfull hvað varðar framkvæmdir og rekstur á sama tíma og að því er stefnt, eins og verið hefur undanfarin ár, að ekki verði um verulega skuldaaukningu að ræða, heldur framkvæmt eins og kostur er fyrir eigið fé. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að erfiðara reynist á hverju ári að ná þessum markmiðum vegna mjög aukins rekstrarkostnaðar við að sinna lögboðinni þjónustu án þess að skatttekjur séu að hækka í sama mæli. Eins og áður er getið er hægt að nálgast fjárhagsáætlun ársins og þriggja ára áætlun á bæjarskrifstofum og er hægt að fá nánari skýringar á þeim eftir óskum. Í lokin sendi ég góðar kveðjur til bæjarbúa með ósk um áframhaldandi gott samstarf á árinu í þeirri viðleitni að fegra og bæta bæinn okkar.

Guðmundur Guðlaugsson bæjarstjóri