Ferðir Ferðafélags Siglufjarðar.

Mynd: Frá gönguferð á vegum ferðafélagsins. Fengin af heimasíðu félagsins.
Mynd: Frá gönguferð á vegum ferðafélagsins. Fengin af heimasíðu félagsins.
Ferðafélag Siglufjarðar stendur fyrir skipulögðum gönguferðum í sumar. Fyrsta ferðin verður miðvikudaginn 28. maí en þá verður boðið upp á fuglaskoðunarferð í Héðinsfirði. 
Síðan verður sólstöðuganga 20. júní. Gengið á Hvanneyrarhyrnu 5. júlí. Út á Siglunes 19. júlí. Listaganga um Siglufjörð verður 30. júlí og síðan gengið á Hólshyrnuna 2. ágúst. Gönguferðir sumarsins enda svo um suðureggjar Siglufjarðarfjalla þann 9. ágúst.   Nánari upplýsingar um hverja ferð:

Fuglaskoðunarferð í Héðinsfirði. Einn skór.
28. maí, kl. 18 frá útsýnisskífunni í Héðinsfirði. 
Verð: 1.000. 3-4 klst.
Gengið með vatninu að vestan og niður að sjó. Áhugaverð leið í einstökum eyðifirði. Fjölbreytt fuglalíf.

Sólstöðuganga. Tveir skór.
20. júní, kl. 21:30 með rútu frá Ráðhústorgi.
Verð: 1.500. Rúta er innifalin. 4-5 klst.
Gengið inn Mánárdal, upp í Dalaskarð og út Leirdali, mögulega upp á Hafnarhyrnu, 687 m, og svo niður í Hvanneyrarskál.
Kjötsúpa að lokinni göngu.

Hvanneyrarhyrna. Þrír skór.
5. júlí, kl. 13 frá Ráðhústorgi. 
Verð: 1.000. 3-4 klst. Ekki fyrir lofthrædda.
Gengið upp í Hvanneyrarskál og þaðan upp á brún að vestanverðu, út eggjarnar á Hvanneyrarhyrnu, niður Gróuskarð og á Gróuskarðshnjúk.
Falleg leið, brött og klettótt um lausar skriður og eggjar.

Siglunes. Þrír skór.
19. júlí, kl. 9 frá norðurenda flugvallarins.
Verð: 2.500. 8-10 klst. Gengið að rústum síldarverksmiðju Evanger og áfram að vitanum við Selvík og upp í Kálfsdal.
Þaðan yfir Kálfsskarð og niður í Nesdal og út á Siglunes.
Til baka eftir Nesskriðum að vitanum við Selvík og aftur að flugvellinum.
Nokkuð löng ganga eftir Nesdal. Leiðin um skriðurnar er brött og ekki fyrir lofthrædda.
Möguleiki er að bátur sæki þá sem það vilja á nesið, en það ræðst af þátttöku.

Listaganga. Einn skór.
30. júlí, kl. 20 frá Ráðhústorgi. 
Verð: 500. 2-3 klst.
Gengið um eyrina á Siglufirði, vinnustofur listamanna heimsóttar og kannað hvað er á döfinni.

Hólshyrna. Þrír skór.
2. ágúst, kl. 11 frá syðri enda flugvallarins. 
Verð: 1.500. 4-5 klst. Mesta hæð 687 m.
Gengið frá Saurbæjarási og upp framan á eggjum Hólshyrnu, Hólshyrnuröðul og upp á Hólshyrnuna.
Eftir Hólsfjalli og niður í Skútudal. Áhugaverð og sjaldfarin útsýnisleið sem er nokkuð brött á köflum.

Suðureggjar Siglufjarðarfjalla. Þrír skór.
9. ágúst, kl. 9 frá Skarðdalsviki, efstu beygju á Siglufjarðarskarðsvegi að austanverðu. 
Verð: 2.000.
Gengið er suðaustur og fjallatoppar þræddir inn á Almenningshnakka, hæstan siglfirskra fjalla. Komið niður Hólsskarð og gengið út Hólsdalinn.
Brött og klettótt leið, með lausum skriðum og háum eggjum. Ekki fyrir lofthrædda en stórfenglegt útsýni til allra átta.