Félagsmiðstöðin Neon í Fjallabyggð sigraði í hönnunarkeppninni Stíl

Það voru þær Birna Björk Heimisdóttir, Cristina Silvia Cretu og Sunna Karen Jónsdóttir nemendur úr Grunnskóla Fjallabyggðar sem sigruðu í hönnunarkeppninni Stíl sem fram fór í íþróttahúsinu Digranesi þann 17. mars sl. Brynhildur R. Vilhjálmsdóttir kennari var þeim innan handar við undirbúning keppninnar.

Rúmlega hundrað og tuttugu unglingar í 27 liðum tóku þátt í keppninni sem haldin var í sautjánda sinn. Þemað í ár var Drag sem endurspeglaðist í glæsilegri hönnun unglinganna. Félagsmiðstöðin Hraunið lenti í öðru sæti og í því þriðja lenti félagsmiðstöðin Tjarnó. Félagsmiðstöðin Fönix fékk verðlaun fyrir bestu förðunina. Félagsmiðstöðin Vitinn fékk verðlaun fyrir hár og Hraunið 1 fékk verðlaun fyrir framkomu. Félagsmiðstöðin Þrykkjan var verðlaunuð fyrir bestu hönnunarmöppuna og félagsmiðstöðin Klakinn fékk sérstök hvatningarverðlaun.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs setti viðburðinn og var þétt setið á áhorfendabekkjunum.
Dómnefndina skipuðu sérfræðingarnir Harpa Ómarsdóttir, eigandi, skólastjóri og kennari við Hárakademíuna. Ólafur Helgi Móberg, útskrifaður frá NABA með með BA gráðu í tísku- og textílhönnun og sigurvegari Dragdrottning Íslands 2003 sem Starina. Katla Einars, förðunarmeistari, stílisti og sviðsstjóri á Drag-Súgi. Helga Karólína Karlsdóttir, kennari hjá Reykjavík Makeup School og eigandi snyrtivöruverslunarinnar Coolcos og Lovísa Tómasdóttir, klæðskeri, förðunarfræðingur og verslunarstjóri hjá Kjólar og Konfekt.

Reykjavík Makeup School og Hárakademían héldu undirbúningsnámskeið, gáfu verðlaun og buðu gestum upp á ráðgjöf og hárgreiðslu á viðburðinum. Samfés er nú í auknum mæli að tengja starfið, viðburðina og unga fólkið við iðn- og starfsgreinar. Fjölmörg fyrirtæki styrktu keppnina í ár með vinningum fyrir unga fólkið.

Hægt er að sjá myndir og myndskeið frá viðburðinum á samfélagsmiðlum Samfés (Facebook, Instagram og Snapchat).

neon