Unglingar í félagsmiðstöðinni Neon hafa undanfarin ár safnað fyrir ferð á Samfestinginn í Laugardalshöll með óskum um styrki bæði frá fyrirtækjum og einstaklingum. Í ár er engin breyting þar á en þó ætla unglingarnir að bjóða upp á þá nýbreytni að hafa góðgerðarviku.
Góðgerðarvikan verður dagana 12.-16. mars og fer þannig fram að á þessum tíma geta einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir óskað eftir aðstoð / vinnuframlagi eða góðverki frá unglingunum og e.t.v. styrkt þau til ferðarinnar í staðinn. Góðverkin verða innt af hendi eftir að skóla lýkur á daginn. Styrkur er samt alls ekki skilyrði fyrir góðverkinu. Unglingarnir munu eins og fyrri ár ganga í hús og óska eftir styrkjum í formi lágra upphæða frá einstaklingum og þá er mjög gaman að geta sagt frá því að þau séu að vinna góðverk fyrir samfélagið í staðinn.
Góðverkin geta verið í formi:
- Setja í poka fyrir fólk í búðinni og bera vörur út í bíl
- Moka úr tröppum
- Fara út með hundinn
- Vaska upp á kaffistofum
- Spila við fólkið á dvalarheimilunum / mæta í bingó
- Hjálpa til í stofnunum/fyrirtækjum
- Týna rusl í bænum
- Fylla á kæla og hillur í búð
Aðrar góðar hugmyndir eru vel þegnar.
Einstaklingar og fyrirtæki geta „pantað“ góðverk með því að hafa samband við Daníelu, umsjónarmann Neons í síma 777-4020 eða í netfang danielajohannsdottir@gmail.com