Bergþór Morthens bæjarlistamaður Fjallabyggðar

Menningarnefnd hefur valið Bergþór Morthens myndlistarmann á Siglufirði, bæjarlistamann Fjallabyggðar árið 2010. Þetta er í fyrsta sinn sem bæjarlistamaður Fjallabyggðar er valinn og mun sérstök viðhöfn fara fram eftir páska í Ráðhúsinu, þar sem bæjarlistamaður verður heiðraður.

Markmiðið með því að tilnefna bæjarlistamann ár hvert er að hvetja og auka áhuga á listsköpun og bæta menningarlíf íbúa. Um leið er það viðurkenning bæjaryfirvalda að sköpun og list skipti samfélagið máli. Loks er slík nafnbót auglýsing á listamanninum og sveitarfélaginu. Styrkur til bæjarlistamanns 2010 nemur kr. 250.000.