Frjóar umræður á „heimskaffi“.
Mæting á íbúafund á Siglufirði í gær fór fram úr björtustu vonum skipuleggjenda. Á þriðja hundrað manna og kvenna mættu á fundinn til að ræða hvaða áskorunum byggðarlagið stendur frammi fyrir og hvernig þeim verður best mætt.
Þórir Kristinn Þórisson, bæjarstjóri, fór yfir stöðuna i atvinnumálum og hvað bæjaryfirvöld hafa aðhafst í þeim málum að undanförnu. Að því loknu hófst svokallað „heimskaffi“ undir stjórn Sigurborgar Hannesdóttur, ráðgjafa hjá Alta. Þar ræddu fundargestir spurninguna ,,Hvaða áskorunum stöndum við frammi fyrir og hvernig gætum við mætt þeim?”.
Í lok heimskaffisins var hvert borð beðið um að leggja fram eina góða
hugmynd og segja álit sitt á því hvað væri mikilvægast að gera fyrst. Viðraðar
voru margvíslegar hugmyndir um leiðir til að bæta atvinnuástand á Siglufirði og
er greinilegt að íbúar líta á ferðaþjónustu sem helsta sóknarfærið. Með þess
sem þar bar á góma var gott hótel, skíðasvæðið, útivist og sjávar- og
menningartengd ferðaþjónusta. Þátttakendur lögðu áherslu á góða markaðssetningu
bæði í ferðaþjónustu og á Fjallabyggð almennt. Heilsubærinn
Fjallabyggð var nokkuð til umræðu og sóknarfæri í ýmiss konar heilsutengdri
starfsemi. Einnig kom fram að
heimamenn binda miklar vonir við nýjan framhaldsskóla í Ólafsfirði og leggja
áherslu á að hann geti tekið til starfa strax næsta haust.
Þegar spurt
var um hver ættu að vera næstu skref, töldu þátttakendur skipta mestu að íbúar
vinni saman af jákvæðni og bjartsýni og að unnið verði áfram út frá hugmyndum
íbúa.
Sigríður Ingvarsdóttir kynnti starfsemi Frumkvöðlaseturs Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands þá möguleika sem stofnendur og aðstandendur fyrirtækja hafa á styrkjum og annarri aðstoð við þróun hugmynda sinna.
Að lokum kynnti Sigurborg Hannesdóttir bráðabirgðaniðurstöður fundarins, en endanlegar niðurstöður verða dregnar saman að afloknum fundinum í Ólafsfirði í kvöld. Ætlunin er að nota niðurstöður fundanna tveggja í markmiðasetningu og stefnumótun sveitarfélagsins í atvinnu og byggðamálum.
Þetta var
fyrri íbúafundurinn í Fjallabyggð undir yfirskriftinni ,,Fjallabyggð er
frumkvöðull". Síðari fundurinn er í Tjarnarborg í Ólafsfirði í kvöld kl.
20.