Auglýst eftir umsóknum vegna úthlutunar styrkja úr bæjarsjóði Fjallabyggðar vegna ársins 2023

Fjallabyggð auglýsir eftir umsóknum vegna úthlutunar styrkja til menningarmála, fræðslumála, rekstrarstyrkja til safna og setra, styrkja vegna hátíða og styrkja til greiðslu fasteignaskatts félaga og félagasamtaka vegna ársins 2023. Einnig er tekið á móti ábendingum, tillögum og/eða erindum er varða fjárhagsáætlun 2023.

Allir einstaklingar og félagasamtök sem hafa hug á að sækja um styrki eða framlög vegna ársins 2023 er bent á að senda inn rafrænar umsóknir gegnum íbúagáttina "Mín Fjallabyggð" sem finna má hér á heimasíðu Fjallabyggðar.

Auglýst er eftir umsóknum í eftirfarandi flokkum

Styrkir til menningarmála

Fjallabyggð veitir styrki til einstaklinga, hópa, félagssamtaka til einstakra menningartengdra verkefna. Markaðs- og menningarnefnd getur ákveðið sérstakar áherslur við styrkúthlutun hverju sinni og verða þær þá að koma fram í auglýsingu.

Veittir eru styrkir til sýninga, námskeiða og fyrirlestra á sviði menningar og lista. Einnig eru veittir styrkir til afnota af mannvirkjum og munum Fjallabyggðar. Ekki eru veittir rekstrarstyrkir, styrkir til hátíðarhalda né vegna atvinnustarfsemi í þessum styrkflokki.

Hver lögaðili getur einungis sótt um styrk fyrir eitt verkefni í hverri úthlutun. 

Menningarstyrkir Fjallabyggðar geta aldrei verið hærri fjárhæð en sem nemur helmingi (50%) alls kostnaðar eða að hámarki 500.000 kr. –  
Markmið með styrkjum til menningarmála er að styðja við menningarstarfsemi, metnaðarfull verkefni á sviði menningar og lista, listsköpun og viðburði í Fjallabyggð sem efla fjölbreytileika menningar og jákvæða þróun í menningarmálum.

Reglur Fjallabyggðar um úthlutun styrkja til menningartengdra verkefna, reksturs safna og setra og til hátíðarhalda.

Styrkir til fræðslumála

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar auglýsir einu sinni á ári styrki til fræðslumála og úthlutar þeim samkvæmt reglum um úthlutun styrkja til fræðslumála og með hliðsjón af leiðarljósi fræðslustefnu Fjallabyggðar – Kraftur- sköpun - lífsgleði. Framlag til úthlutunar er ákveðið við gerð fjárhagsáætlunar Fjallabyggðar ár hvert.

Fræðslustyrkir Fjallabyggðar geta aldrei verið hærri fjárhæð en sem nemur helmingi (50%) alls kostnaðar eða að hámarki kr. 100.000.-

Hver lögaðili getur einungis sótt um styrk fyrir eitt verkefni í hverri úthlutun. 

Markmið með styrkjum til fræðslumála er að styðja við ýmsa viðburði og verkefni sem tengjast fræðslumálum í Fjallabyggð, samstarfi heimilis og skóla eða samstarfi þvert á skólastig.

Reglur Fjallabyggðar um úthlutun styrkja til fræðslumála 

Rekstrarstyrkir til safna og setra

Bæjarráð Fjallabyggðar auglýsir einu sinni á ári eftir umsóknum um rekstrarstyrki til safna og setra með starfsemi og lögheimili í  Fjallabyggð. 

Rekstrarstyrkurinn er styrkur sem viðurkennt starfandi safn eða setur getur sótt um meðal annars til að efla faglega starfsemi sína og treysta rekstur þess. Styrkja nýsköpun í rekstri og starfsemi safnsins/setursins. 

Styrkir til hátíðarhalda

Bæjarráð Fjallabyggðar auglýsir einu sinni á ári eftir umsóknum félaga og félagasamtaka vegna styrkja til hátíðarhalda í Fjallabyggð. 

Styrkir til greiðslu fasteignaskatts félaga og félagasamtaka

Bæjarstjórn Fjallabyggðar er heimilt að veita styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar,- íþrótta,- æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf sbr. Heimild í 2.mgr. 5.gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
Rétt til styrks eiga félög og félagasamtök sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

  • Eru fasteignaeigendur í Fjallabyggð.
  • Reka starfsemi sína í því húsnæði sem um ræðir sbr. 1.gr. reglna um um styrki til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka.
  • Með þeim undantekningum sem greinir í 5.gr. reglna um styrki til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka.
  • Starfa á sviði menningar-, íþrótta-, tómstunda- eða góðgerðarmála og/eða mannúðarstarfa, og eru rekin í almannaþágu eða í þágu æskulýðs. Um mannúðarsamtök gildir að góðgerðarstarfsemi verður að mestu að vera unnin í sjálfboðavinnu félagsmanna og ná út fyrir raðir þeirra, s.s. í formi styrkja, gjafa eða stuðnings fyrir almannaheill og samfélagið.
  • Eru ekki rekin í ágóðaskyni. Þó er heimilt að innheimta tímabundnar tekjur fyrir notkun húsnæðisins sbr. 5.gr. reglna um styrki til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka.

Reglur Fjallabyggðar um styrki til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka.

Einungis er tekið við rafrænum umsóknum á Mín Fjallabyggð.

Skilafrestur umsókna er til og með 30. október 2022. Alla jafna eru styrkir ekki veittir á öðrum tímum.

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér reglur Fjallabyggðar um úthlutun styrkja sem aðgengilegar eru hér.

Gert er ráð fyrir að úthlutun fari fram í janúar 2023.

Fyrirspurnir og nánari upplýsingar veita deildarstjóri fræðslu,- frístunda- og menningarmála, Ríkey Sigurbjörnsdóttir, rikey@fjallabyggd.is og deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála, Bragi Freyr Kristbjörnsson, netfnag bragi@fjallabyggd.is eða gegnum netfangið fjallabyggd@fjallabyggd.is