Endurvinnsluvika

Vikuna 12.–19. september verður haldin endurvinnsluvika í fyrsta sinn á Íslandi. Að átakinu stendur  Úrvinnslusjóður í samvinnu við umhverfisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, Sorpu, Gámaþjónustuna, Íslenska gámafélagið og Endurvinnsluna. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra mun setja endurvinnsluvikuna 12. september. Lögð verður áhersla á að kynna mikilvægi endurvinnslu fyrir íslenskt samfélag, sérstaklega á pappa, pappír og plasti. Sérstök áhersla verður lögð á kynningu fyrir unglinga þar sem kannanir benda til að fólk á aldrinum 16-20 ára standi sig einna verst í flokkun sorps. Flestir framhaldsskólar landsins munu taka þátt í endurvinnsluvikunni.
Hvatt verður til kennslu um mikilvægi endurvinnslu í lífsleikni í framhaldsskólum og hefur verið útbúið sérstakt kennsluefni af þessu tilefni.  Jafnframt hefur verið útbúin undirsíða á vef Úrvinnslusjóðs þar sem gefin verða góð ráð varðandi endurvinnslu fyrir allan almenning og þar verður einnig hægt að nálgast kennsluefnið.
Til viðbótar við þetta verða birtar auglýsingar þar sem hvatt er til endurvinnslu.
Kynningarátakið hefst formlega með fjölmiðlafundi sem haldinn verður á morgun, föstudaginn 12. september, kl. 11.30. Kynningarefni verður aðgengilegt sama dag á vef Úrvinnslusjóðs, www.urvinnslusjodur.is/endurvinnsluvika. Birting auglýsinga í tengslum við átakið hefst daginn eftir í dagblöðum og á vefmiðlum.