Endurskoðun á úthlutun beitarhólfa

Fjallabyggð hefur ákveðið að endurskoða úthlutun á beitarhólfum fyrir hesta og sauðfé. Flest beitarhólf í eigu sveitarfélagsins hafa verið í notkun án skriflegra samninga við sveitarfélagið með tilheyrandi réttaróvissu. Markmiðið með breytingunum er að ná utan um afnotin, gera skriflega samninga og stjórna úthlutunninni út frá sjónarmiðum um jafnræði borgaranna. Hestamannafélaginu Glæsi og Fjáreigendafélagi Siglufjarðar verður falin umsjón með hólfunum og úthlutun þeirra til framtíðar.

Með vísan til framangreinds hefur Fjallabyggð ákveðið að segja upp öllum ósamningsbundnum afnotum af beitarhólfum á landi í eigu sveitarfélagsins.

Með hliðsjón af ákvæðum ábúðarlaga, nr. 80/2004, um uppsögn, er þeim sem afnot hafa haft af beitarhólfunum hér með sagt upp þeim afnotum og tekur uppsögnin gildi í næstu fardögum nema um annað sé samið, sbr. 35. gr. sbr. 9. gr. ábúðarlaga. Með vísan til framangreinds mun afnotaréttur þeirra sem haft hafa beitarhólf falla úr gildi eigi síðar en síðasta fardag sumars, sunnudaginn 5. júní 2016.

Sé óskað eftir nánari upplýsingum er hægt að hafa samband við Ármann V. Sigurðsson, deildarstjóra tæknideildar á skrifstofu Fjallabyggðar í síma 464-9100 eða með tölvupósti armann@fjallabyggd.is.